Nutella krans

Published 15 desember, 2013 by fanney

Uppskriftir með Nutella heilla mig, líkt og milljónir annarra býst ég við. Það var því ekki lítil gleðin þegar ég fékk sendan link frá vinkonu minni um þennan Nutella krans eða stjörnu. Alveg ótrúlega fallegt á að horfa, lyktin er stórkostleg og bragðið? Þið getið rétt ímyndað ykkur…

Ég hef prófað þennan krans tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið fór ég alveg eftir uppskriftinni í linknum, en það heppnaðist mjög illa svo ég varð að reyna aftur og þá með aðra brauðuppskrift. Ég deili þeirri uppskrift því hérna sem og myndbandinu þar sem sjá má stórvinkonu mína hana Titli Nihan kenna okkur að flétta brauðið svo úr verði þessi guðdómlega fallegi krans eða stjarna. Vissulega er Nutella langbestasta bragð sem þið getið sett inní kransinn, en  ef þið viljið breyta til þá get ég alveg ímyndað mér að súkkulaði, möndluspænir og marsipan sé líka svakalega góð fylling. Já eða pistasíuhnetur og þurrkaðir ávextir.

___

Nutella krans

500 gr hveiti

190 ml mjólk, ylvolg

3 msk sykur

60 gr brætt smjör

2 egg

rifinn börkur af 1 sítrónu

1 tsk salt

1 tsk þurrger

Nutella eða annað í fyllingu

___

Byrjið á því að blanda sykrinum og þurrgerinu útí mjólkina og leyfið því að standa í 5-10 mínútur. Blandið hveiti, salti og sítrónuberki saman í stórri skál og hrærið svo eggjunum, smjöri og mjólkurblöndunni. Auðveldast er að nota hrærivél eða þeytara með hnoðara en að sjálfsögðu er þetta líka hægt að gera í höndunum. Hnoðið deigið í 7-10 mínútur í höndum, 3-5 mínútur sé notuð vél. Deigið á að vera fallega slétt og ef þið potið varlega í deigkúluna á ekki að myndast gat. Setjið deigið í smurða skál og leyfið að hefast í klukkustund, eða þar til það hefur tvöfaldast að stærð.

Eftir hefun er deigið barið niður, þ.e. hnoðað til að taka loftið úr deiginu. Skiptið í fjóra jafnstóra hluta. Byrjið á því að fletja einn hlutann út í hring sem er ca 3-4 millimetrar að þykkt. Færið hringinn á bökunarpappírsklædda plötu og smyrjið Nutella (eða annarri fyllingu) á hringinn. Ef Nutella er stíft er ágætt að skella því í örbylgjuofn í 10-20 sekúndur. Fletjið svo út annan hluta í jafn stóran hring og setjið ofan á Nutellasmurða hringinn, smyrjið aftur með Nutella. Farið eins að með þriðja hringinn en fjórði hringurinn er ekki smurður með Nutella. Snyrtið hliðar hringsins svo hann sé jafn allan hringinn. Þá hefst alvöru gamanið 🙂

ImageImage

Byrjið á því að setja glas á hvolf í miðju hringsins, eða ímyndið ykkur hring í miðjunni. Þvínæst deilið þið hringnum í fjóra jafnstóra geira, skerið líkt og pítsu, en farið ekki alveg í gegn heldur bara upp að glasinu. Skiptið svo hverjum þessara fjögurra geira í tvennt svo þið hafið 8 jafnstóra geira. Skiptið svo þessum 8 geirum þannig þeir verði að 16 geirum. Hefst þá fléttun. (Spólið á mínútu 5:30 í myndbandinu til að sjá Titli gera þetta http://www.youtube.com/watch?v=pcgk-j8BS1c#t=267)

Image

Takið tvo samliggjandi geira og snúið þeim líkt og sýnt er í myndbandinu. Festið hliðarnar saman og endurtakið við hina geirana.

Image

Leyfið nú undursamlega kransinum að hefast í hálftíma, fjörutíu mínútur áður en hann er penslaður með mjólk og bakaður við 180°C í 20-25 mínútur. Þegar kransinn kemur úr ofninum, smyrjið þá smá bræddu smjöri á hann til að fá fallegri lit og áferð. Stórkostlegri verða varla brauðin!

Image

Auglýsingar

Vanillu karamellur með hafsalti

Published 13 desember, 2013 by fanney

Ég elska karamellur. Sérstklega karamellur með salti eða karamellusósur með salti. Þessar karamellur fann ég á pinterest og varð að prófa. Þær eru æðislegar! Ég átti unaðslega gott Fleur de sel salt sem ég keypti í Frakklandi og notaði það ofan á karamellurnar, en það má að sjálfsögðu nota hvaða hafsalt sem er. Þessar karamellur eru tilvaldar í jólapakka til matgæðinga eða sætabrauðsgrísa. Skutla þeim í bökunarpappír og í krukku eða poka, skreyta með borða og handskrifuðum miða. Glæsileg gjöf! 

___

Vanillu karamellur með hafsalti

Image

260 gr sykur

250 ml rjómi

50 gr síróp

25 gr smjör

1/4 tsk vanillukorn eða fræ úr einni vanillustöng

gott hafsalt

___

Öllu nema salti skellt í pott og brætt yfir miðlungshita, hrært í þar til bráðnað og blandan fer að sjóða. Þá hættið þið að hræra og leyfið karamellunni að malla þar til hún nær 122°C, eða í ca korter, tuttugu mínútur. Hellið í bökunarpappírsklætt eldfast form eða fat og leyfið karamellunni að stífna í 5 mínútur áður en þið sáldrið smá af unaðslegu hafsalti yfir. Geymist í nokkrar vikur í kæli. Skerið í þá bita sem ykkur hentar og berið fram eða pakkið inní bökunarpappír eða sellófan og gefið kærum vini í jóla- eða afmælisgjöf. 

Image

Djúsí brownies – brúnkur

Published 14 júní, 2013 by fanney

Þessar brownies eru svo ómótstæðilega góðar og fáránlega auðveldar – og fljótgerðar. Tilvalin uppskrift þegar maður fæ cravings í djúsí súkkulaðidásemd. Þær eru bestar! Ekki of blautar, alls ekki þurrar, ekki harðar, molna ekki – bara nákvæmlega eins og þær eiga að vera. Djúsí, fudge-legar og glimrandi góðar!

___

Brownies – brúnkur

20x20cm mót

 

200 gr dökkt súkkulaði 

110 gr smjör

2 msk gott kakó

200 gr sykur

3 egg

90 gr hveiti

dass vanilluextract

pínku salt (ef þið notið ósaltað smjör)

___

Bræðið smjör og 150 gr af súkkulaði í potti á lágum hita (eða bain marie/yfir vatnsbaði). Blandið því næst kakó, vanillu og sykri saman við og svo eggjunum, einu í einu. Blandið þvínæst salti (ef þið notuðuð ósaltað smjör) og hveitinu VARLEGA saman við, ef þið blandið þetta of mikið þá gæti brúnkan orðið seig og brauðkennd. Það viljum við ekki 🙂 

Smyrjið 20 x 20 cm form og smellið gúmmilaðinu í. Brjótið niður 50 gr af súkukulaðinu sem eftir voru og potið bitunum á víð og dreif í kökudeigið. Bakið við 180 °C í 20-25 mínútur.

Athugið að ef þið notið stærra eða minna bökunarmót þá lengist/styttist bökunartíminn. Þessi uppskrift er lítil, enda á að borða brownies samdægurs, að mínu mati 🙂 Þannig eru þær bestar! Það má líka hita þær aðeins í örbylgjunni daginn eftir til að verma súkkulaðibitana.

Spænsk Gazpacho-súpa

Published 3 júní, 2013 by fanney

Hérna í Kalvåg er búið að vera ansi hlýtt og sólríkt síðustu vikuna og löngun mín í ískalda og frískandi Gazpacho-súpu aukist með hverjum deginum. Í dag átti ég frí í vinnunni svo það var tilvalið að skella í þessa dásemd. Var líka svo heppin að allir tómatar í Spar voru á 40% afslætti, hentugt!

Þessi súpa er spænsk, ættuð frá Andalúsíuhéraðinu á Spáni og er eflaust jafn misjöfn og heimilin sem útbúa hana. Uppistaðan er þó tómatar og grænmeti og hún er borin fram ísköld, stundum með ísmolum útí. Fyrst þegar ég smakkaði þessa súpu þótti mér hún skrýtin, það var eitthvað spes við það að borða kalda súpu. En síðan þá hef ég borðað hana reglulega og í hvert einasta skipti hugsa ég; ohh, af hverju geri ég þessa súpu ekki oftar? Í flestum upprunalegum uppskriftum er dagsgamalt brauð lagt í bleyti og sett útí súpuna til að þykkja hana, en ég er löngu hætt að gera það. Margir hafa líka stökka brauðteninga með súpunni en ég sleppi þeim og nota gulrót í staðinn. Fyrir vikið er súpan glútenlaus (vei!) og eintóm hollusta og unaður.

Það er hægt að leika sér með grænmetið sem sett er í súpuna, sem og kryddjurtir. Hægt er að nota basilíku, steinselju, timjan, myntu… hvað sem ykkur dettur í hug! Prófið endilega og reynið helst að borða súpuna úr litríkri skál úti á palli, í garðinum eða útá næstu stétt.


photo-15

 

___

Spænsk Gazpacho-súpa

f. 2

 

700 gr vel þroskaðir tómatar (ekki kaupa þessa útlensku sem maður setur sjálfur í poka og eru ljós appelsínugulir. Við viljum nota djúprauða tómata sem hafa djúpt og mikið bragð. Þessi uppskrift er hræódýr svo það er í lagi að gera vel við sig í tómatinnkaupum hér!)

1/2 rauð paprika

1/2 paprika, hvaða litur sem er

1 gúrka

nokkrir vorlaukar

4 msk söxuð steinselja/basilíka…

1/2 rautt chilli

5 msk ólífuolía

2 msk balsamedik (eða annað gott edik sem þið eigið)

1 væn gulrót

2 hvítlauksrif

salt og pipar

__

Byrjið á því að sjóða vatn, skera mjög grunnan kross neðan á alla tómatana og setja þá í skál, hella svo sjóðandi vatninu yfir þá og leyfa að standa í sirka mínútu. Með þessu er auðveldara að flysja tómatana, en við viljum ekki hafa flusið á þeim. Flysjið svo tómatana og skerið til helminga, takið fræin úr og setjið í blandara/matvinnsluvél/skál. Skerið hálfa gúrku í grófa bita og bætið út í, sem og 1/2 rauðri papriku, 2 msk steinselju, 3-4 vorlaukum, chilli, 4 msk ólífuolíu, ediki, hvítlauk og salti og pipar. Maukið þar til mjög vel blandað og smakkið til með salti og pipar (og chilli ef vill). Skutlið inní ísskáp og kælið í amk hálftíma eða fram til næsta dags þess vegna.

Með súpunni er borin fram nokkurs konar salsa. Í hana nota ég iðulega ca 1/2 paprik

 

u í einhverjum lit (eða mörgum litum!), 1 gulrót, 1/2 gúrku, 2-3 vorlauka, 2 msk steinselju, 1 msk olíu og salt og pipar. Skerið allt grænmetið í litla teninga og blandið saman. Smakkið til með olíu, salti og pipar.

Þegar þið berið súpuna fram, setjið þið smávegis af salsa ofan á súpuna (og brauðteninga ef þið viljið), driss af ólífuolíu og ekki væri nú verra að sötra ískalt hvítvín á tyllidegi. Sannarlega sumarfæða!

Kínóa- og linsuborgarar

Published 18 febrúar, 2013 by fanney

Kínóa (quinoa) er nú meiri snilldin! Það er svipað og kúskús (couscous) nema kínóa er fræ og glútenlaust, á meðan kúskús er búið til úr hveiti (semolina) og vatni. Kúskús er tæp 4% prótín á meðan kínóa er um 14% prótín. Fyrst þegar ég prófaði að elda kínóa notaði ég það aðallega í salöt og súpur. Í veikindunum síðustu viku hef ég haft ansi drjúgan tíma aflögu til að grúska og fann fullt af girnilegum uppskriftum sem mig langar til að prófa, m.a. með kínóa. Má þar t.d. nefna sushi með kínóa og þessa kínóa- og linsubaunaborgara.

Upprunalegu uppskriftina má finna á þessu skemmtilega bloggi, þar sem er aragrúi girnilegra og hollra uppskrifta. Ég á án efa eftir að prófa fleiri uppskriftir af þessu bloggi! Eins og mín er von og vísa varð ég að sjálfsögðu að breyta uppskriftinni aðeins, mestmegnis sökum þess ég átti ekki allt til sem var í uppskriftinni. Einnig er ég ekki með matvinnsluvélina mína hérna í Noregi, svo ég varð aðeins að spinna mig áfram þar.

Til að gera langa sögu stutta þá eru þessir borgarar þeir bestu sem ég hef smakkað hingað til! Ég prófaði bæði að steikja þá á pönnu og baka í ofni. Báðar útgáfur komu vel út, en ég var hrifnar af steiktu borgurunum. Þeir fengu stökkari húð og voru ekki eins blautir inní. Kannski ég hafi þurft að baka hina aðeins meira til að fá svipaða niðurstöðu?

Þessa hollu borgara má borða eins og hamborgara, þ.e. á brauði með sósu og salati, það er hægt að setja þá í tortillavefju með grænmeti og djúsí sósu, borða með sætkartöflufrönskum og grilluðu grænmeti eða hvernig sem ykkur dettur í hug. Í kvöld borðaði ég þá með salati og dressingu úr sýrðum rjóma. Delíss! Ekki verra að eiga núna dýrindis buff, tilbúin inní frysti 🙂

___

Kínóa- og linsuborgarar

12 litlir borgarar – f. 4 manneskjur

80 gr rautt kínóa (1/2 bolli), hægt að nota hvítt kínóa líka eða blöndu

2 dl vatn

1 egg

2 gulrætur, fínt rifnar

1 lítill laukur, fínt rifinn

3 hvítlauksrif

1 tsk cummin

1 tsk kóríander

ca 1 dl glútenlausir hafrar, brauðmylsna eða önnur sterkja til að binda saman

1 dós niðursoðnar linsur (svartar baunir, nýrnabaunir, grænar linsur.. hvað sem er!)

salt og pipar

___

Byrjið á því að setja vatnið í lítinn pott, salta smá og koma upp suðu. Þegar suðan er komin upp er kínóa hellt útí og því leyft að malla á lágum hita, undir loki, í 12-14 mínútur, eða þar til allur vökvinn hefur skriðið inní kínóað. Á meðan er restinni blandað saman. Ef þið eigið matvinnsluvél þá byrjið þið á því að setja gulræturnar í hana og saxa fínt, blandið svo restinni (þar með talið soðna kínóað) útí vélina og mixið í stuttum lotum þar til þetta er orðið að kássu, en ekki of maukað. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél getið þið rifið niður gulræturnar í skál, rifið niður laukinn (eða saxað mjög fínt) og hvítlaukinn og sett restina útí. Ég á töfrasprota svo ég leyfði honum aðeins að taka smá snúning í skálinni, en þó ekki þannig að þetta verði að barnamat! Leyfið blöndunni að hvílast í ca hálftíma, þá ná hafrarnir/brauðmylsnan að draga í sig hluta af vökvanum og það verður auðveldara að meðhöndla blönduna við eldun.

Ef þið eigið ísskeið með sleppara, þá mæli ég eindregið með því að þið notið hana. Þannig verður buffgerðin leikur einn! Ef þið eigið enga slíka, þá er bara að nota tvær stórar skeiðar – eða venjulegar skeiðar – bara eftir því hvað þið viljið hafa buffin stór. Ég notaði stærri ísskeiðina mína og fékk út 12 buff.

Ef þið viljið baka buffin í ofni, þá notið þið bökunarpappír og hafið ofninn stilltan á 175°C. Bakið í 15-20 mín og snúið buffunum eftir 8-10 mínútur. Ef þið viljið steikja, steikið í smá olíu á miðlungshita í 6-8 mínútur, eða þar til þið hafið fengið góðan gullin lit.

 

 

Satay kjúklingaréttur með núðlum

Published 22 janúar, 2013 by fanney

Ég elska Satay-núðlurnar á Krua Siam á Akureyri. Það var hún elsku besta Tinna Brá vinkona mín sem kom mér upp á þær. Það er svo margt á matseðlinum hjá Krua Siam alveg fáránlega gott og ekki pakkabragð af matnum heldur alvöru krydd og gúmmilaðiheit. Í dag fékk ég gríðarlega löngun í satay-núðlurnar þeirra, en rétturinn sem ég eldaði vatt aðeins upp á sig þar sem ég er að reyna borða meira grænmeti. Þetta er því nokkurskonar satay-pottréttur með fullt af grænmeti og kjúkling og dass af núðlum 🙂 Ef ykkur líkar satay-sósa, já eða hnetusmjör og/eða hnetusmjör, þá er ég viss um að þessi réttur höfðar til ykkar!

___

Satay-kjúklingaréttur með núðlum

Fyrir tvo svanga maga

Satay-sósan:

100 gr gróft hnetusmjör

1/2 dl sojasósa (Kikkoman þykir mér best, ekki of sölt, ef þið notið aðra sojasósu, byrjið þá með minna magn og sjáið hversu sölt hún er)

3 msk sæt chillisósa (sweet chilli)

1 tsk malað kóríander

1/2 tsk malað cummin (broddkúmen)

1 dós kókosmjólk

safi úr 1 lime

2 cm bútur engifer, fínt rifinn

2 hvítlauksrif, fínt rifin

__

Öllu blandað saman í pott, suðunni leyft að koma upp og þá er sósan tilbúin. Þessi sósa dugar fyrir fjóra svo ég setti restina í krukku og inní ísskáp. Hægt að geyma í loftþéttu íláti inní ísskáp í marga marga daga!

__

2 kjúklingabringur, skornar í bita

1/2 rauðlaukur, skorinn í strimla

2 gulrætur, skornar í strimla

1 lúka baunaspírur

1/2 – 1 rautt chilli, fínt saxað

1/2 rauð paprika, skorin í strimla

nokkrir baby-maísar, skornir í bita

nokkrar water chestnut – hefði ég átt dósaopnara. Þær verða að bíða þar til ég hef fjárfest í einum slíkum

(eða það grænmeti sem ykkur dettur í hug að nota!)

3 vorlaukar, saxaðir

lúka jarðhnetur („salthnetur“ án salts – helst), saxaðar fínt

eggjanúðlur eða hrísgrjónanúðlur

___

Byrjið á því að steikja kjúklinginn og bætið svo grænmetinu útá ásamt chilli-inu, en geymið hneturnar og vorlaukinn þar til rétturinn er borinn fram. Ef þið eigið litla pönnu getið þið byrjað á að steikja kjúllann og setja til hliðar og taka svo grænmetið. Ekki gleyma að salta og pipra kjúllann og grænmetið. Á meðan eru núðlurnar soðnar í léttsöltu vatni, magn fer eftir hungri. Þegar allt er steikt og tilbúið er slatta sósu skellt út á pönnuna og núðlunum blandað saman við (eða núðlunum blandað saman við í stórri skál, bara hita sósuna aðeins á pönnunni áður). Þegar rétturinn er borinn fram er vorlauk og salthnetum stráð yfir og hver og einn kreystir svo úr lime-bát yfir diskinn sinn, hversu mikið fer eftir smekk. Sjálf vill ég setja nóg af lime-safa!

Verði ykkur að góðu! 🙂

Granóla (múslí?)

Published 17 janúar, 2013 by fanney

Ég ruglast yfirleitt á þessu tvennu; granóla og múslí. Fyrir mér er þetta það sama, fullt af kornum, hnetum og etv. þurrkuðum ávöxtum. Til þess að gleðja þá smámunasömu þá get ég sagt að það er jú vissulega örlítill munur. Í grundvallaratriðum snýst hann um framleiðsluna. Þ.e. granóla er yfirleitt bakað/steikt í hunangi/sykri/sírópi og olíu, en múslí ekki. Hvað sem því líður þá langar mig að deila með ykkur þægilegri uppskrift að heimalöguðu granóla. Einhverjir kunna að gapa og jesússa sig yfir púðursykrinum og hlynsírópinu, sérstaklega nú í janúar, en er ekki betra að borða heimalagað granóla með smá sykri í staðinn fyrir keypt sull sem maður veit ekkert hvað er í (aukaefni og unnar olíur til dæmis)? Æ, svo má maður nú aðeins lifa, haaa… ;-)

Uppskriftin er miðuð við eins manns heimili myndi ég segja (JEY!) en hana má hæglega tvöfalda, þrefalda eða margfalda að vild. Geymist vel í loftþéttu íláti. Hún er fengin að láni frá Chef John sem ég fylgist vel með á YouTube.


Granóla; eftir ofn

___

Granóla

50 gr púðursykur

3 msk hlynsíróp (um 60 gr)

2 msk olía (um 26 gr)

1/2 tsk salt

140 gr hafrar (ég notaði múslí með þurrkuðum bláberjum, beisikklí hvaða hafrar sem er, blanda af höfrum eða þvíumlíkt, gott í skápatiltektinni!)

100 gr möndlur, grófsaxaðar

30 gr kókosmjöl (ég átti það ekki og notaði saxaðar valhnetur í staðinn)

ég bætti svo við dass af bourbon-vanillukornum, get einnig ímyndað mér að dass af kanil sé unaður

___

Blandið saman púðursykri, sírópi, olíu og salti. Blandið svo höfrunum, hnetum og kókosmjöli saman við – sem og vanillu/kanil eða öðrum kryddum sem ykkur langar að nota. Blandið mjög vel þar til allt er vel húðað í blautefnunum. Ef þið eigið sílíkonmottu, notið hana, ef ekki, notið þá bökunarpappír og spreyið hann með olíu/smjöri. Dreifið vel úr blöndunni og bakið við 140°C í klukkutíma, en hrærið í með gaffli á kortersfresti.

Ef þið viljið setja einhverja þurrkaða ávexti útí (döðlur, apríkósur, rúsínur, epli, mangó…) þá er best að setja þá útí þegar granólað er tilbúið, en ekki baka þá. Mig langar að saxa dökkt súkkulaði og setja útí granólað þegar það er orðið kalt :) En fyrst ætla ég að nota granólað til að búa til parfait fyrir vinkonu mína sem er í „ekkert súkkulaði eða nammi-átaki“ 😉

Verði ykkur að góðu og gangi ykkur vel! :-)

Granóla; fyrir ofn