Uncategorized

All posts in the Uncategorized category

Nutella krans

Published 15 desember, 2013 by fanney

Uppskriftir með Nutella heilla mig, líkt og milljónir annarra býst ég við. Það var því ekki lítil gleðin þegar ég fékk sendan link frá vinkonu minni um þennan Nutella krans eða stjörnu. Alveg ótrúlega fallegt á að horfa, lyktin er stórkostleg og bragðið? Þið getið rétt ímyndað ykkur…

Ég hef prófað þennan krans tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið fór ég alveg eftir uppskriftinni í linknum, en það heppnaðist mjög illa svo ég varð að reyna aftur og þá með aðra brauðuppskrift. Ég deili þeirri uppskrift því hérna sem og myndbandinu þar sem sjá má stórvinkonu mína hana Titli Nihan kenna okkur að flétta brauðið svo úr verði þessi guðdómlega fallegi krans eða stjarna. Vissulega er Nutella langbestasta bragð sem þið getið sett inní kransinn, en  ef þið viljið breyta til þá get ég alveg ímyndað mér að súkkulaði, möndluspænir og marsipan sé líka svakalega góð fylling. Já eða pistasíuhnetur og þurrkaðir ávextir.

___

Nutella krans

500 gr hveiti

190 ml mjólk, ylvolg

3 msk sykur

60 gr brætt smjör

2 egg

rifinn börkur af 1 sítrónu

1 tsk salt

1 tsk þurrger

Nutella eða annað í fyllingu

___

Byrjið á því að blanda sykrinum og þurrgerinu útí mjólkina og leyfið því að standa í 5-10 mínútur. Blandið hveiti, salti og sítrónuberki saman í stórri skál og hrærið svo eggjunum, smjöri og mjólkurblöndunni. Auðveldast er að nota hrærivél eða þeytara með hnoðara en að sjálfsögðu er þetta líka hægt að gera í höndunum. Hnoðið deigið í 7-10 mínútur í höndum, 3-5 mínútur sé notuð vél. Deigið á að vera fallega slétt og ef þið potið varlega í deigkúluna á ekki að myndast gat. Setjið deigið í smurða skál og leyfið að hefast í klukkustund, eða þar til það hefur tvöfaldast að stærð.

Eftir hefun er deigið barið niður, þ.e. hnoðað til að taka loftið úr deiginu. Skiptið í fjóra jafnstóra hluta. Byrjið á því að fletja einn hlutann út í hring sem er ca 3-4 millimetrar að þykkt. Færið hringinn á bökunarpappírsklædda plötu og smyrjið Nutella (eða annarri fyllingu) á hringinn. Ef Nutella er stíft er ágætt að skella því í örbylgjuofn í 10-20 sekúndur. Fletjið svo út annan hluta í jafn stóran hring og setjið ofan á Nutellasmurða hringinn, smyrjið aftur með Nutella. Farið eins að með þriðja hringinn en fjórði hringurinn er ekki smurður með Nutella. Snyrtið hliðar hringsins svo hann sé jafn allan hringinn. Þá hefst alvöru gamanið 🙂

ImageImage

Byrjið á því að setja glas á hvolf í miðju hringsins, eða ímyndið ykkur hring í miðjunni. Þvínæst deilið þið hringnum í fjóra jafnstóra geira, skerið líkt og pítsu, en farið ekki alveg í gegn heldur bara upp að glasinu. Skiptið svo hverjum þessara fjögurra geira í tvennt svo þið hafið 8 jafnstóra geira. Skiptið svo þessum 8 geirum þannig þeir verði að 16 geirum. Hefst þá fléttun. (Spólið á mínútu 5:30 í myndbandinu til að sjá Titli gera þetta http://www.youtube.com/watch?v=pcgk-j8BS1c#t=267)

Image

Takið tvo samliggjandi geira og snúið þeim líkt og sýnt er í myndbandinu. Festið hliðarnar saman og endurtakið við hina geirana.

Image

Leyfið nú undursamlega kransinum að hefast í hálftíma, fjörutíu mínútur áður en hann er penslaður með mjólk og bakaður við 180°C í 20-25 mínútur. Þegar kransinn kemur úr ofninum, smyrjið þá smá bræddu smjöri á hann til að fá fallegri lit og áferð. Stórkostlegri verða varla brauðin!

Image

Auglýsingar

Vanillu karamellur með hafsalti

Published 13 desember, 2013 by fanney

Ég elska karamellur. Sérstklega karamellur með salti eða karamellusósur með salti. Þessar karamellur fann ég á pinterest og varð að prófa. Þær eru æðislegar! Ég átti unaðslega gott Fleur de sel salt sem ég keypti í Frakklandi og notaði það ofan á karamellurnar, en það má að sjálfsögðu nota hvaða hafsalt sem er. Þessar karamellur eru tilvaldar í jólapakka til matgæðinga eða sætabrauðsgrísa. Skutla þeim í bökunarpappír og í krukku eða poka, skreyta með borða og handskrifuðum miða. Glæsileg gjöf! 

___

Vanillu karamellur með hafsalti

Image

260 gr sykur

250 ml rjómi

50 gr síróp

25 gr smjör

1/4 tsk vanillukorn eða fræ úr einni vanillustöng

gott hafsalt

___

Öllu nema salti skellt í pott og brætt yfir miðlungshita, hrært í þar til bráðnað og blandan fer að sjóða. Þá hættið þið að hræra og leyfið karamellunni að malla þar til hún nær 122°C, eða í ca korter, tuttugu mínútur. Hellið í bökunarpappírsklætt eldfast form eða fat og leyfið karamellunni að stífna í 5 mínútur áður en þið sáldrið smá af unaðslegu hafsalti yfir. Geymist í nokkrar vikur í kæli. Skerið í þá bita sem ykkur hentar og berið fram eða pakkið inní bökunarpappír eða sellófan og gefið kærum vini í jóla- eða afmælisgjöf. 

Image

Djúsí brownies – brúnkur

Published 14 júní, 2013 by fanney

Þessar brownies eru svo ómótstæðilega góðar og fáránlega auðveldar – og fljótgerðar. Tilvalin uppskrift þegar maður fæ cravings í djúsí súkkulaðidásemd. Þær eru bestar! Ekki of blautar, alls ekki þurrar, ekki harðar, molna ekki – bara nákvæmlega eins og þær eiga að vera. Djúsí, fudge-legar og glimrandi góðar!

___

Brownies – brúnkur

20x20cm mót

 

200 gr dökkt súkkulaði 

110 gr smjör

2 msk gott kakó

200 gr sykur

3 egg

90 gr hveiti

dass vanilluextract

pínku salt (ef þið notið ósaltað smjör)

___

Bræðið smjör og 150 gr af súkkulaði í potti á lágum hita (eða bain marie/yfir vatnsbaði). Blandið því næst kakó, vanillu og sykri saman við og svo eggjunum, einu í einu. Blandið þvínæst salti (ef þið notuðuð ósaltað smjör) og hveitinu VARLEGA saman við, ef þið blandið þetta of mikið þá gæti brúnkan orðið seig og brauðkennd. Það viljum við ekki 🙂 

Smyrjið 20 x 20 cm form og smellið gúmmilaðinu í. Brjótið niður 50 gr af súkukulaðinu sem eftir voru og potið bitunum á víð og dreif í kökudeigið. Bakið við 180 °C í 20-25 mínútur.

Athugið að ef þið notið stærra eða minna bökunarmót þá lengist/styttist bökunartíminn. Þessi uppskrift er lítil, enda á að borða brownies samdægurs, að mínu mati 🙂 Þannig eru þær bestar! Það má líka hita þær aðeins í örbylgjunni daginn eftir til að verma súkkulaðibitana.

Súkkulaðipiparkaka!

Published 28 nóvember, 2012 by fanney

Súkkulaði er gott. Piparkökur eru góðar. Súkkulaðipiparkaka er tvöföld ánægja! Ef ekki meira. Í rauninni er þetta samt ekki hefðbundin piparkaka, heldur kaka með jólakryddunum kanil, negul og engifer. Sú dýrð í bland við kakó OG saxað dökkt súkkulaði spilar svo einhverja ægilega fína tóna í skoltinum… prófið og látið mig vita!

Uppskriftin er fengin héðan, en ég verð að segja að ég var ekki ánægð með kremið hjá henni. Mæli frekar með því að þið gerið ítalskan marengs (t.d. er uppskrift neðst á þessari síðu) eða hreinlega dustið með flórsykri og berið fram með þeyttum rjóma. Já eða þeyttum rjóma með smá kanil útí, eða Bailey´s… eða eitthvað!

___

Súkkulaðipiparkaka

1 stk 24-28 cm kaka

250 gr hveiti

60 gr kakó (í upprunalegu uppskriftinni eru 90 gr en mér finnst það of mikið)

1 1/4 tsk natron

1/4 tsk negull (rúmlega að mínu mati)

1 tsk kanill (rúmlega að mínu mati)

1 tsk engifer (rúmlega að mínu mati)

1/4 tsk allrahanda (sleppti því, hver á annars allrahanda??)

125 ml sýrður rjómi

125 ml hrein jógúrt (ég sleppti jógúrtinni en setti samtals 2,5 dl af sýrðum rjóma)

80 ml vatn

110 gr mjúkt smjör

250 gr púðursykur

50 gr sykur

180 gr matarolía

3 egg

1 tsk vanilluextract

100 gr dökkt súkkulaði, saxað

___
Blandið saman þurrefnum í einni skál (megið gjarnan sigta þetta saman (tekur bara 1 mínútu, ég lofa!) þar sem kakóið vill voða mikið knúsa aðrar kakóflygsur) og svo sýrðum rjóma, jógúrt og vatni í annarri skál eða mælikönnu sem auðvelt er að hella úr. Byrjið svo á því að þeyta saman sykurinn og smjörið þar til óskaplega vel blandað (,,létt og ljóst“ gildir ekki hér, þar sem þetta verður hvorki létt né ljóst, en hugmyndin er sú sama – brjóta fitueiningarnar í smjérinu inní sykurinn svo þetta samlagist allt unaðslega vel í ofninum). Bætið þvínæst olíuinnu útí og svo eggjunum einu í einu. Það gerum við til þess að minnka líkurnar á því að blandan skilji sig. Geri hún það, farast hvorki himinn né jörð, en allur er varinn góður. Á þessu stigi er líka vænlegt að skella vanillunni útí skálina. Svo þarf að víxla þurrefnablöndunni og blautu blöndunni í smjörblönduna þar til allt er vel blandað (fyrst setjið þið 1/3 af þurrefnunum og blandið saman, svo helminginn af vökvanum og blandið – og svo koll af kolli þar til allt er vel blandað). Síðast setjið þið hakkað súkkulaði (ekki of smátt samt, ef ég má ráða. Ekki eins og súkkulaðispæni, en samt þannig að maður sé ekki að fá heilu hraukana af súkkulaði!).
Skv upprunalegu uppskriftinni er kakan bökuð í 22 cm formi, en ég hef eingöngu notast við 24 og 28 cm springform með mjög góðum árangri. Ég legg bökunarpappír á hringinn úr forminu og lokið. Klippið þar sem út af stendur og spreyjið allt formið vel með non-stick spreyi (eða smyrjið með öðrum ráðum). Hellið dásemdinni í formið og bakið í 180°c heitum ofni í 50 mínútur, eða þar til kökuprjónn kemur hreinn út, sé honum stungið í kökuna. Ef þið notið 28 cm form styttist bökunartíminn eitthvað, svo hafið varann á eftir ca 40 mín.
Kakan þarf svo að fá að kólna áður en hún er kremuð. Geymist mjög vel í kæli og tilvalið að frysta (án krems, að sjálfsögðu). Ég mæli þó með því að þið takið hana úr kæli ca hálftíma áður en á að borða hana, svo súkkulaðið sé ekki grjóthart og svona.
Hérna að neðan má svo sjá hvernig þessi terta er á jólahlaðborðinu á veitingastaðnum sem ég vinn á. Trén gerði ég úr lituðu marsipani – poppa svo sannarlega á snjóhvítu undirlagi 🙂

Hnetusmjörscupcake

Published 25 apríl, 2012 by fanney

Martha Stewart er snillingur í bakstri. Hvort hún varð snillingur í því í fangelsinu veit ég eigi. Ég er svolítið eins og litlu börnin að því leitinu að sumir versla handa mér gjafir, fari þeir erlendis. Anna Rósa og Heimir, yndisvinir mínir á Akureyri, komu færandi hendi frá New York í fyrra og færðu mér bókina Cupcakes eftir Mörthu Stewart. Bókin er algjör biblía, hrikalega margar flottar uppskriftir og hugmyndir sem gaman er að skoða. Ég hef prófað þónokkrar þeirra, m.a. kókoscupcake, súkkulaðicupcake og svo þessa; peanutbutter & jelly cupcake. Ammrískara verður það varla – nema ég troði beikonsneið ofan á herlegheitin. Þessi cupcake vakti mikla athygli í Góða ferð partýinu mínu síðasta föstudag og lofaði ég nokkrum að senda uppskriftina á þá. Eins og gengur og gerist gleymdi ég hverjir það voru, svo ég hendi henni bara hér inn í þeirri von um að viðkomandi aðilar nálgist hana hér 🙂

Uppskriftin að kökunni er úr bókinni, en kremið er byggt á uppskrift í bókinni með mínu tvisti. Njótið og góða skemmtun!

Hnetusmjörscupcake

48 litlar eða 24 hefðbundin stærð

220 gr hveiti

1/4 tsk matarsódi

3/4 tsk lyftiduft

115 gr smjör

300 gr sykur

260 gr hnetusmjör, creamy

3 stór egg, eða 4 lítil

1/2 tsk vanilludropar

115 gr sýrður rjómi

110 gr salthnetur, grófsaxaðar

___

Byrjið á því að blanda saman hveiti, lyftidufti og matarsóda í einni skál. Í hrærivélarskál (eða í skál með þeytara) er svo sett smjör (ekki smjörlíki) og sykur og það þeytt vel saman. Þvínæst er hnetusmjörinu blandað vel saman við og þá eggjunum bætt útí, eitt í einu og blandað vel á milli. Vanilludropum blandað saman við og helmingnum af hveitiblöndunni, þá helmingnum af sýrða rjómanum, restinni af hveitiblöndunni og loks restinni af sýrða rjómanum. Ekki hræra of mikið þegar allt er komið í skálina, heldur rétt bara til að allt sé vel blandað. Þá er grófsöxuðu hnetunum bætt útí.

Bakað við 180°C í 13-20 mín (fer eftir stærð), tékkið með tannstöngli eða prjóni, potið í köku og ef hann kemur hreinn út þá er kakan tilbúin. Leyfið kökunum að kólna á eldhúsbekk áður en kremið er sett í.

___

Hnetusmjörskrem

170 gr rjómaostur, mjúkur

260 gr hnetusmjör (creamy)

1/2 tsk vanilludropar

250 gr mjúkt smjör (alls ekki smjörlíki)

ca 1,5 dl rjómi

3-400 gr flórsykur

Byrjið á því að hræra vel saman rjómaosti, smjöri og hnetusmjöri (ég nota þeytarann í hrærivélinni). Blandið því næst vanilludropunum útí og smátt og smátt flórsykri og rjóma. Þeytið í nokkrar mínútur til að fá loft í kremið. Ef það er of lint til að sprauta á kökurnar má skella því inní kæli í hálftíma.

___

Ég boraði endanum á trésleif ofan í hverja köku þegar þær höfðu kólnað niður í stofuhita, fyllti með ca 1/2-1 tsk af jarðaberjasultu og sprautaði svo kreminu ofan á. Martha setti sultuna ofan á kremið, en mér leist betur á hitt. Sannkölluð sykursæla 🙂

Styttist!

Published 13 apríl, 2010 by fanney

Vorið er í nánd. Ég finn lyktina af því þegar ég nasa úti fyrir. Ég kemst líka í gríðarlegan vorfíling þegar ég skoða þetta blogg hérna. Dásamlega fagrar myndir og skemmtilegur texti.

Ég klikkaði á því að sækja um grænmetisgarð hjá Akureyrarbæ og verð því bara að vera þeim mun duglegri að rækta á svölunum. Það er svo önnur spurning hvort maður hafi tíma í þetta… haa..
Ég gerði annars sítrónukremið unaðslega um daginn. Þvílík snilld að blanda því saman við létt-AB-mjólkina á morgnana! Namm namm… Á þó enn eftir að testa það í ostaköku, er alveg viss um að það er dásemdin ein.