Tarte aux citron – sítrónubaka

Published 21 desember, 2012 by fanney

Tarte aux citron – sítrónutart – sítrónubaka – sítrónukaka… hvaða nöfnum sem þessi unaður kann að heita, þá er þessi kaka eins sú besta. Ég kynntist henni fyrir alvöru þegar ég heimsótti Nonna vin minn í Cannes í Frakklandi núna í nóvember. Frakkar kunna náttúrulega allra þjóða best að útbúa guðdómlega góða OG fallega eftirrétti. Ég náði að smakka þónokkrar tegundir en sítrónubakan hafði svo sannarlega vinninginn. Já og makkarónurnar, þær voru nú meiri unaðurinn. Sú besta var karamellumakkaróna með dulce de leche og fleur de sel á milli. Ég er viss um að ég væri allnokkrum tonnum þyngri, byggi ég í Frakklandi. Kannski eins gott að heimsóknin varði bara í tíu daga 🙂

En aftur að sítrónubökunni. Hún er alls ekki erfið, en þarfnast örlítillar væntumþykju og ástar – eins og allur matur svosem. Til eru mismunandi útgáfur af bökunni þar sem fyllingin er bæði bökuð og óbökuð, rjómakennd eða súr, en þessi sem ég set upp hér er mín uppáhalds; óbökuð með súru sítrónukremi (sem eitt og sér er algjör snilld ofan á brauð eða hvaðeina). Varðandi formin, þá er upplagt að nota hefðbundið tart-form en venjulegt smelluform dugar líka fínt. Ef slíkt er ekki til á ykkar heimilum má alveg setja tartið í hvaða mót sem, t.d. kringlótt eldfast form, lítil creme bruleé form eða það sem þið finnið í skápunum. En lítum á uppskriftina.

sítrónubaka

___

Tarte aux citron – sítrónubaka

Bökubotn: (fenginn héðan)

175 gr hveiti

100 gr kalt smjör, í bitum

25 gr flórsykur

1 eggjarauða

 

1 – 2 msk ískalt vatn

__

Auðveldasta leiðin við að gera botninn er að setja allt nema eggjarauðu og vatn í matvinnsluvél og púlsa (kveikja og slökkva) þar til blandan líkist brauðmylsnu. Þá er eggjarauðu og 1 msk af vatni blandað saman við. Deigið á að vera nokkuð mylsnulegt, en þó þannig að hægt sé að þrýsta því í mótið. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að blanda öllu nema rauðu og vatni saman í hrærivél, nota pískinn á hrærivélinni, og blanda þar til mylsnulegt. Setja þá rauðu og vatn. Ef þið eigið ekki heldur hrærivél, þá getið þið gert þetta í höndunum, mulið smjörið saman við hveitið og flórsykurinn með því að nudda saman höndunum. Reynið að vinna fljótt því við viljum ekki að smjörið bráðni fyrren það kemur inní ofn. Þannig fáum við stökkan botn. Að lokum er svo rauðu og vatni blandað saman. Þið getið flatt deigið út og sett það þannig í formið (eftir að hafa kælt deigið í 15-20 mín), en ég er svo bráðlát að ég þrýsti því bara í formið og passa að setja upp hliðarnar líka. Einnig þarf að passa að hornin/kantarnir séu nokkuð sterkir svo þeir haldi. En aðalmálið er að pressa þetta vel í formið og hafa jafnþykkt. Engin þörf á að smyrja formið. Setjið álpappír eða bökunarpappír ofan á botninn og fyllið bökuna með bökunarbaunum, þurrkuðum baunum eða hrísgrjónum. Þetta gerum við svo botninn okkar rísi ekki of mikið, því við viljum hafa nóg pláss fyrir gómsætu fyllinguna. Bakið við 180 °C í hálftíma, eða þar til botninn er bakaður og hefur tekið á sig gullin lit. Gott er að kíkja inní ofninn reglulega og athuga hvort hliðarnar eru að dökkna um of, ef það gerist er hægt að kippa honum út og setja álpappír yfir kantana. Ég baka botninn yfirleitt í 20 mínútur með baununum og tek hann þá út, tek baunirnar úr, set álpappír á hliðarnar og baka í 10 mín eða þar til botninn sjálfur er orðinn bakaður í gegn.

___

 

Fyllingin – sítrónukrem: (fengin héðan)

 

3 egg

1 eggjarauða

150 gr sykur

safi og skrall af 3 sítrónum

50 gr smjör, við stofuhita

__

 

Sé klikkað á linkinn hér að ofan má sjá myndband af því hvernig maður gerir svona sítrónukrem. Það er auðvelt, en maður þarf að sýna ferlinu þolinmæði og ást 🙂

Blandið saman eggjum, eggjarauðu, sykri og sítrónusafa og skralli í gler- eða stálskál og setjið yfir rétt aðeins sjóðandi vatn. Hrærið í stanslaust þar til blandan þykknar, getur tekið 10-15 mínútur. Hérna erum við í rauninni að elda eggin og rauðuna því það eru þau sem þykkja blönduna, svipað ferli og þegar maður gerir karamellubúðing. Passið því að hafa vatnið ekki of heitt (ekki bubblandi sjóðandi, bara svona simmrandi) og hrærið allan tímann (þarf ekkert að vera krafthrærun, bara svona dúbbídú ég er að hræra í skál). Þegar kremið hefur þykknað er það tekið af pottinum og smjörinu blandað útí, við það kemur æðislegur gljái á kremið sem og góður smjörkeimur til að balansera við sýrunni í sítrónunni. Það er svo undir yk

 

kur komið hvort þið viljið sigta blönduna eður ei, þ.e. sigta börkinn frá, en það þykir mér betra. Ég smelli því blöndunni í gegnum sigti og beint útá bökubotninn (sem hefur fengið að kólna). Setjið plastfilmu yfir kremið þannig að filman snerti kremið allstaðar, þannig fáum við ekki leiðinlega ,,filmu“ á kremið, svona eins og þegar sósur kólna.

Þessi baka er stórkostleg svona, borin fram með þeyttum rjóma, ís eða vanillusósu. En ef tilefnið er sérstakt, er algjörlega við hæfi að útbúa ítalskan marengs til að setja ofaná.

__

Ítalskur marengs:

2 dl  vatn

200 gr sykur

 

4 eggjahvítur

1/4 tsk salt

1 tsk sítrónusafi

__

Setjið vatn og sykur í pott og hitið uppí 125°C. Þegar sírópið hefur náð ca 100 gráðum, byrjið þið að þeyta eggjahvíturnar ásamt salti og sítrónusafa. Þeytið þær þar til stífþeyttar, en ekki þurrar. Þegar sírópið er orðið 124°c er það tekið af hitanum (það heldur áfram að hitna) og hellið ofurvarlega í eggjahvíturnar Á MEÐAN ÞÆR ERU ÞE

YTTAR ÁFRAM. Við erum að tala um bara dropa og dropa, eða örmjóa bunu til að byrja með því við viljum ekki enda með hrærð egg, heldur dúnmjúkt krem. Hafið því hrærivélina hratt stillta og hellið öllu sírópinu varlega útí, haldið svo áfram að hræra þar til skálin kólnar og er orðin stofuheit eða svo. Þá getið þið stoppað vélina og verið fullviss um að eggin séu ekki að fara eldast 🙂 Þessum marengsskýjum er svo dúbbað yfir kalda sítrónubökuna og smá flórsykri stráð yfir. Getur staðið í nokkrar klukkustundir en er best samdægurs. Einnig er hægt að nota gasbrennara og brenna toppinn örlítið og fá svona sykurpúðafíling 🙂

___

Ég veit þetta er löng uppskrift, en ef þið hafið lesið í gegnum allt þá sjáið þið að þetta er ekkert mál, tekur bara smá tíma. En afraksturinn er algjörlega þess virði, því lofa ég! Ef þið eruð ekki mikið fyrir súrt, þá er sjálfsagt að blanda saman smá þeyttum rjóma við sítrónukremið og fylla bökuna með því. Ekki síðra!

Gangi ykkur vel og verði ykkur að góðu!!!

 

xxx

Fanney Dóra

Auglýsingar

Sykurmöndlur – brenndar möndlur

Published 4 desember, 2012 by fanney

Jólunum fylgja sykurmöndlur eða brenndar möndlur. Það er bara svoleiðis. Sérstaklega hérna í Skandinavíu! Mér finnst þó þessar sem maður kaupir í búðinni ekkert spes, alltof harðar og of sætar og of eitthvað… bestu sykurmöndlur sem ég hef fengið fékk ég hjá strákunum á 1862 Nordic Bistro núna í september. Þessar komast ansi nærri, en þó ekki alveg. Það eru greinilega aðeins meiri töfrar settir í möndlurnar þeirra 🙂

Sykurmöndlur

Uppskriftin er ansi auðveld og hentar á eina bökunarplötu. Mjög auðvelt er að margfalda uppskriftina, en þá þarf þeim mun fleiri bökunarplötur því möndlurnar þurfa að fá pínu pláss til að sóla sig í ofninum.

___

Sykurmöndlur – brenndar möndlur

 

sykurmöndlur

500 gr möndlur með hýði

130 gr sykur

70 gr hlynsíróp

(má einnig nota samtals 200 gr sykur ef þið viljið sleppa hlynsírópinu)

2 tsk kanill

1/4 tsk svartur pipar

1/2 tsk salt

1 eggjahvíta

___

Byrjið á því að þeyta eggjahvítuna þar til hún verður að froðu. Þá er möndlunum blandað útí eggjahvítuna og þær baðaðar í froðunni. Þegar allar möndlurnar hafa fengið froðubað er sykri (og sírópi) og kryddum blandað saman við og allt saman hrært vel saman með skeið. Sett á bökunarpappírsklædda ofnskúffu (fínt að spreyja smá non-stick spreyi á pappírinn svo þær festist alveg örugglega ekki) og sett inní 130°C heitan ofn. Möndlurnar sóla sig í klukkutíma í ofninum, en á ca 15-20 mínútna fresti er ofnskúffan tekin út og möndlunum snúið svo þær bakist allan hringinn.

Voilá! Auðvelt alla leið – verði ykkur að góðu!

Fljótlagaðar bananamúffur

Published 29 nóvember, 2012 by fanney

Múffur – möffins – smábrauð – hvað sem þið viljið kalla þetta…. Þegar maður á 2-3 banana sem eru orðnir sorglega tanaðir, og maður er ekki týpan sem borðar slíka banana ,,beint af kúnni“ – þá er þessi uppskrift brilljant. Ótrúlega fjótleg og maður á yfirleitt allt í hana inní eldhússkápunum. Ætli það taki ekki ca 5 mínútur að græja deigið og svo bakar maður dúllurnar í 20-25 mínútur. Sumsé – nýlagaðar múffur á hálftíma. Selt? Prófið að henda í þetta á næsta frídegi ykkar. Hérna í Kalvåg snæddum við Camilla vinkona þessar múffur nýbakaðar og heitar, súkkulaðið bráðið inní þeim og kryddlyktin af þeim dáleiddi okkur (svolítið ýkt? Venjist því!). Pössuðu fullkomlega með kaffinu sem var bragðbætt með piparkökusírópinu sem ég gerði í gærkvöldi.

___

Bananamúffur

Fljótlagaðar bananamúffur

12-14 hefðbundin múffuform

110 gr smjör, brætt (plís ekki nota smjörlíki, það er bragðvont OG vont fyrir kroppinn)

2 egg

2-3 vel þroskaðir bananar, stappaðir

vanilluextract

230 gr hveiti

100 gr sykur

1 tsk lyftiduft

1/4 tsk matarsódi

1/4 tsk salt (ef þið notuðuð ósaltað smjör)

1,5 tsk kanill

1 tsk kardimomma (ef þið viljið, eigið og fílið kardimommu!)

100 gr saxaðar valhnetur/pekanhnetur já eða bara súkkulaði

___

Byrjið á því að kynda ofninn upp í 175°C svo hann verði tilbúinn í fjörið þegar deigið er tilbúið. Setjið 12 pappírsform í möffinsformbakka (ef þið notið slíkan). Næstu skref eru öll gerð í höndunum, engin hrærivél eða þeytari fær að koma nálægt múffubakstri!

Blandið saman öllum þurrefnum og sykri í einni skál, einnig hneturnar/súkkulaðið . Hrærið eggin saman í annarri skál og bætið bönununum útí og svo bræddu smjörinu og vanilluextracti. Hellið blautu efnunum útí þurrefnin og blandið varlega og alls ekki of mikið, bara þar til öll efnin í skálinni hafa fengið að kynnast aðeins og eru samlöguð. Ef við hrærum deigið mikið verða múffurnar seigar og leiðinlegar. Við viljum auðvitað hafa þær flöffí og skemmtilegar!

Skiptið deiginu milli 12 forma og bakið í 20-25 mínútur í 175°C heitum ofni. Leyfið aðeins að rjúka úr þeim eftir að þær koma úr ofninum, helst þó ekki meira en 5 mínútur (!!!) áður en þið snæðið þær með ískaldri mjólk, ilmandi kaffi eða nýlöguðum tebolla. Einfalt!

Súkkulaðipiparkaka!

Published 28 nóvember, 2012 by fanney

Súkkulaði er gott. Piparkökur eru góðar. Súkkulaðipiparkaka er tvöföld ánægja! Ef ekki meira. Í rauninni er þetta samt ekki hefðbundin piparkaka, heldur kaka með jólakryddunum kanil, negul og engifer. Sú dýrð í bland við kakó OG saxað dökkt súkkulaði spilar svo einhverja ægilega fína tóna í skoltinum… prófið og látið mig vita!

Uppskriftin er fengin héðan, en ég verð að segja að ég var ekki ánægð með kremið hjá henni. Mæli frekar með því að þið gerið ítalskan marengs (t.d. er uppskrift neðst á þessari síðu) eða hreinlega dustið með flórsykri og berið fram með þeyttum rjóma. Já eða þeyttum rjóma með smá kanil útí, eða Bailey´s… eða eitthvað!

___

Súkkulaðipiparkaka

1 stk 24-28 cm kaka

250 gr hveiti

60 gr kakó (í upprunalegu uppskriftinni eru 90 gr en mér finnst það of mikið)

1 1/4 tsk natron

1/4 tsk negull (rúmlega að mínu mati)

1 tsk kanill (rúmlega að mínu mati)

1 tsk engifer (rúmlega að mínu mati)

1/4 tsk allrahanda (sleppti því, hver á annars allrahanda??)

125 ml sýrður rjómi

125 ml hrein jógúrt (ég sleppti jógúrtinni en setti samtals 2,5 dl af sýrðum rjóma)

80 ml vatn

110 gr mjúkt smjör

250 gr púðursykur

50 gr sykur

180 gr matarolía

3 egg

1 tsk vanilluextract

100 gr dökkt súkkulaði, saxað

___
Blandið saman þurrefnum í einni skál (megið gjarnan sigta þetta saman (tekur bara 1 mínútu, ég lofa!) þar sem kakóið vill voða mikið knúsa aðrar kakóflygsur) og svo sýrðum rjóma, jógúrt og vatni í annarri skál eða mælikönnu sem auðvelt er að hella úr. Byrjið svo á því að þeyta saman sykurinn og smjörið þar til óskaplega vel blandað (,,létt og ljóst“ gildir ekki hér, þar sem þetta verður hvorki létt né ljóst, en hugmyndin er sú sama – brjóta fitueiningarnar í smjérinu inní sykurinn svo þetta samlagist allt unaðslega vel í ofninum). Bætið þvínæst olíuinnu útí og svo eggjunum einu í einu. Það gerum við til þess að minnka líkurnar á því að blandan skilji sig. Geri hún það, farast hvorki himinn né jörð, en allur er varinn góður. Á þessu stigi er líka vænlegt að skella vanillunni útí skálina. Svo þarf að víxla þurrefnablöndunni og blautu blöndunni í smjörblönduna þar til allt er vel blandað (fyrst setjið þið 1/3 af þurrefnunum og blandið saman, svo helminginn af vökvanum og blandið – og svo koll af kolli þar til allt er vel blandað). Síðast setjið þið hakkað súkkulaði (ekki of smátt samt, ef ég má ráða. Ekki eins og súkkulaðispæni, en samt þannig að maður sé ekki að fá heilu hraukana af súkkulaði!).
Skv upprunalegu uppskriftinni er kakan bökuð í 22 cm formi, en ég hef eingöngu notast við 24 og 28 cm springform með mjög góðum árangri. Ég legg bökunarpappír á hringinn úr forminu og lokið. Klippið þar sem út af stendur og spreyjið allt formið vel með non-stick spreyi (eða smyrjið með öðrum ráðum). Hellið dásemdinni í formið og bakið í 180°c heitum ofni í 50 mínútur, eða þar til kökuprjónn kemur hreinn út, sé honum stungið í kökuna. Ef þið notið 28 cm form styttist bökunartíminn eitthvað, svo hafið varann á eftir ca 40 mín.
Kakan þarf svo að fá að kólna áður en hún er kremuð. Geymist mjög vel í kæli og tilvalið að frysta (án krems, að sjálfsögðu). Ég mæli þó með því að þið takið hana úr kæli ca hálftíma áður en á að borða hana, svo súkkulaðið sé ekki grjóthart og svona.
Hérna að neðan má svo sjá hvernig þessi terta er á jólahlaðborðinu á veitingastaðnum sem ég vinn á. Trén gerði ég úr lituðu marsipani – poppa svo sannarlega á snjóhvítu undirlagi 🙂

Piparkökur með súkkulaðibitum

Published 23 nóvember, 2012 by fanney

Það er komið að einum skemmtilegasta tíma ársins að mínu mat – undirbúningstíma jólanna. Ég hef óskaplega gaman af því að baka og dúllast í eldhúsinu, prófa nýjar uppskriftir sem og gera þessar gömlu góðu sem klikka aldrei. Þar sem ég er nú búsett í Noregi er margt nýtt sem ég þarf að kanna, og leiðist mér það alls ekki! Uppáhaldið mitt hingað til eru krumkaker, sem eru örþunnar kökur bakaðar á n.k. vöfflujárni (eða krumkakejern) og meðan þær eru enn heitar eru þær mótaðar eins og ísform. Þær má svo fylla með því sem manni dettur í hug, en hefðbundið er að blanda saman þeyttum rjóma og multuberjum (gul ber, svipuð og hindber nema mun sérstakari á bragðið) eða multuberjasultu og fylla herlegheitin með því. Ægilega gott – og núna hreinlega verð ég að eignast svona járn!

En í dag er örlítið einfaldari uppskrift í boði hér, uppskrift sem ég rakst á inná Pinterest, póstaði á fésbókinni minni og lofaði að þýða fyrir vinkonu mína. Ég tek uppskriftina héðan, af norsku bloggi sem mér finnst yndislega girnó, en upprunalega er uppskriftin frá Mörthu Stewart. Ilmurinn af þeim er unaðslegur og þær smakkast ægilega vel 🙂

___

Piparkökur með súkkulaðibitum

110 gr mjúkt smjör

200 gr púðursykur

1 msk ferskt engifer, fínt rifið

1/2 dolla síróp (eða um 125 gr)

1 tsk natron + 3 msk sjóðandi vatn

275 gr hveiti

1 1/4 tsk engifer

1 tsk kanill

1/4 tsk negull

1/4 tsk múskat

1 msk kakó

200 gr dökkt súkkulaði

perlusykur, ef vill

___

Byrjið á því að blanda saman smjöri, fersku engifer og púðursykri og hræra það vel saman þar til það verður aðeins ljósara að lit. Blanda þurrefnum saman í skál – að undanskildu natroni – og saxa súkkulaðið smátt (þó ekki jafn smátt og súkkulaðispænir, eða það finnst mér ekki gott, ég vil finna fyrir súkkulaðinu í kökunum). Blandið saman natroni og sjóðandi vatni í lítilli skál/glasi. Þegar smjörblandan hefur fengið að finna fyrir því í nokkrar mínútur er helmingnum af þurrefnunum skellt útí og blandað þar til vel samlagað. Þá er natronvatninu hellt útí og blandað vel og svo restinni af þurrefnunum. Þegar allt er vel blandað er súkkulaðinu smellt í skálina.

Ókei, svo kemur að því í uppskriftinni að maður eigi að kæla deigið. Þvínæst er deiginu skipt upp í kúlur sem eru 3-4 cm að þvermáli, þeim smellt í ísskápinn í 20 mín og þvínæst rúllað uppúr perlusykri og bakaðar. Ég fór öðruvísi að… ég notaði Oxo ískúluskeiðina mína (með sjálfvirka slepparanum – helber snilld í baksturinn!) og gerði myndarlegar hlussur og bakaði strax. Hvora aðferðina sem þið notið, þá er ofnhitinn 170°C og þær skulu bakast í 10-12 mín. eða þar til yfirborðið fer að springa. Þegar þær koma úr ofninum eru þær mjög mjúkar og þurfa nokkrar mínútur á bökunarpappírnum til að ná sér niður – áður en þær eru færðar á rist til að kólna alveg.

ATH! Þær renna talsvert mikið út (skv minni aðferð amk) svo gerið ekki ráð fyrir fleiri en 9 stk á hefðbundna bökunarplötu.

Ég átti ekki ferskt engifer né múskat og ég notaði hvítan sykur. Að auki nennti ég ekki kælistússinu hér að ofan. Hefði ég gert það, þá hefði ég mun fegurri kökur. En þær sem ég hef eru æðislega góðar. Gott kryddbragð, seigar í miðjunni og stökkar á köntunum. Súkkulaðibitarnir eru svo skemmtilegt sörpræs 🙂

UPPFÆRSLA: daginn eftir urðu þessar kökur alveg grjótharðar (mikill sykur?) og ekkert spes. Því miður! Kannski ef ég hefði farið algjörlega eftir upprunalegu uppskriftinni, sæti ég glaðari með kökurnar. Veit ekki… en alla vegana, þið vitið af þessu 🙂

Banana „Whoopie-pie“ með allskonar

Published 11 september, 2012 by fanney

Það er alltaf jafn ofurljúft að koma heim í Ólafsvík til mömmu og pabba. Þessi tilfinning ,,að vera heima“ er ómetanleg. Þrátt fyrir að hafa flutt úr foreldrahúsum fyrir mörgum árum, þarf ég ennþá að ,,taka rúntinn“ þegar ég kem heim. Í þessum rúnti felst að ganga um allt húsið og sjá hvort eitthvað sé breytt, opna ýmsa skápa og skoða hvað megi þar finna og auðvitað opna ísskápinn og kanna innihaldið. Undirstöðuatriði við heimkomu.

Síðustu daga hef ég verið hérna í Ólafsvík, en í dag þarf ég að fara aftur norður á Akureyri til að klára að pakka niður íbúðinni minni. Ég vildi óska þess að ég gæti verið lengur hérna. Best væri þó ef ég gæti pakkað á daginn meðan mamma og pabbi vinna, og varið kvöldunum með þeim. En það er víst aðeins of langt á milli Akureyrar og Ólafsvíkur…

Ýmislegt hefur gengið á í eldhúsinu í Engihlíðinni síðustu daga. Meðal annars komu frænkur mínar tvær í heimsókn og við systurnar gerðum sushi með þeim systrum handa foreldrum okkar. Stórglæsileg veisla í alla staði með fersku – OG djúpsteiktu sushi. Lilsys gerði svo hina velþekktu snickers-tertu frá Ebbu sem er alltaf jafn góð. Lambaskankarnir hans Jamie mölluðu hérna í gærkvöldi og ég gerði mús úr venjulegum og sætum kartöflum, rjómaosti með kryddjurtum og sítrónusafa. Þá hefur pönnukökupannan aðeins fengið að púla, á henni hafa bæði verið gerðar skonsur og ógrynni af pönnukökum. Það er leitun að öðru eins bakkelsi eins og pönnukakan okkar er!

Í gærmorgun kveikti ég á Food Network þegar ég fór framúr og sá þá þátt sem fjallar um breskan mann sem skoðar götumat (street food). Hann fór á markaði og smakkaði á þeim skyndibita sem verið var að selja, margt alveg ótrúlega girnilegt og jafnvel hollt! Svo kíkti hann í bakarí til tveggja Ameríkana sem fluttu til Bretlands, en eftir nokkur ár fóru þeir að sakna ammríska bakkelsins og hófu bakstur. Þeir seldu baksturinn á götumörkuðum og þetta varð svona líka fáránlega vinsælt að í dag eru þeir með verslun, hafa gefið út uppskriftabók og ég veit ekki hvað og hvað. Bakaríið heitir því skemmtilega nafni Outsider Tart og verður pottþétt heimsókn næst þegar ég á leið um London. Allavegana, í þættinum gerðu þeir banana whoopie-pie með súkulaðibitum og valhnetum og á milli var hnetusmjörskrem. Þetta hljómaði alltof vel þarna í gærmorgun svo ég varð að prófa. Eftir pínu gúggl fann ég enga uppskrift að þessu frá þeim svo ég varð að græja þetta sjálf. Þetta er afraksturinn og get ég algjörlega mælt með þessu fyrir þá sem fíla hnetusmjör. Annars er lítið mál að gera annað krem á milli, ef hnetusmjörsástin er ekki sterk.

Og já, hvað er whoopie-pie? Ætli sé ekki best að lýsa því fyrirbæri þannig: litlar mjúkar kökur með kremi á milli! Svipaðar og smákökur, nema þykkari og mýkri – svipaðar og tertur, nema minni! Þetta er enginn megrunarmatur, en maður er heldur kannski ekkert að hugsa um það á meðan maður japlar á þessar unaðssemd!

___

Banana whoopie-pie með súkkulaði og pekanhnetum og rjómaostahnetusmjörskremi

250 gr hveiti

1/2 tsk salt

1/2 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

1 banani, stappaður gróflega, ekki alveg í mauk

240 gr súrmjólk

110 gr smjör, brætt

220 gr sykur

200 gr púðursykur

1 egg

1 tsk vanilludropar

Væn lúka pekanhnetur, saxaðar

væn lúka dökkt súkkulaði, saxað (eða dökkir súkkulaðidropar)

___

Byrjið á því að hræra vel saman smjöri, púðursykri og sykri. Sigtið hveiti, salt, lyftiduft og matarsóda saman í skál. Í annarri skál blandið þið saman súrmjólkinni, vanilludropum og banananum. Þegar sykurblandan hefur verið hrærð í 2-3 mínútur er egginu bætt útí, svo helmingnum af hveitinu og helmingnum af bananablöndunni og svo restinni. Ekki hræra meira en þarf. Síðast er hnetunum og súkkulaðinu bætt útí.

Mér finnst ískúluskeiðara með ,,sleppara“ algjör snilld og notaði slíka við að setja deigið á plötur. Ef þið eigið ekki svoleiðis er vel hægt að nota matskeiðar. Deiginu er smellt á plötur líkt og verið sé að baka smákökur, en gætið að hafa gott bil á milli þeirra þar sem þær renna aðeins út. Ca væn matskeið af deigi og ca 6 sm á milli. Þetta er svo bakað við 170°C þar til þær taka smá lit á jöðrunum, eða í 15-18 mín. Leyfið að kólna vel áður en kremið er sett á milli.

___

Rjómaostahnetusmjörskrem

200 gr rjómaostur, við stofuhita

100 gr smjör, við stofuhita

150 gr hnetusmjör, gróft eða fínt (ég notaði hnetusmjörið frá Sollu svo kremið mitt varð ekkert alltof sætt)

ca 150 gr flórsykur

dass vanilludropar

__

Hrærið vel saman rjómaosti, smjöri og hnetusmjöri þar til kekkjalaust og vel blandað. Bætið þá flórsykrinum smám saman útí þar til kremið verður mjúkt og gott. Passið að setja ekki of mikinn flórsykur, kremið á ekki að vera dísætt.

___

Þegar kökurnar hafa kólnað er kreminu smurt eða sprautað á eina köku og önnur sett ofan á og þannig mynduð samloka. Ekki flóknara en það! 🙂 Njótið og verði ykkur að góðu!

Gott bil á milli

 

Bakaðar og sætar

 

Sátt með afraksturinn

Hnetusmjörscupcake

Published 25 apríl, 2012 by fanney

Martha Stewart er snillingur í bakstri. Hvort hún varð snillingur í því í fangelsinu veit ég eigi. Ég er svolítið eins og litlu börnin að því leitinu að sumir versla handa mér gjafir, fari þeir erlendis. Anna Rósa og Heimir, yndisvinir mínir á Akureyri, komu færandi hendi frá New York í fyrra og færðu mér bókina Cupcakes eftir Mörthu Stewart. Bókin er algjör biblía, hrikalega margar flottar uppskriftir og hugmyndir sem gaman er að skoða. Ég hef prófað þónokkrar þeirra, m.a. kókoscupcake, súkkulaðicupcake og svo þessa; peanutbutter & jelly cupcake. Ammrískara verður það varla – nema ég troði beikonsneið ofan á herlegheitin. Þessi cupcake vakti mikla athygli í Góða ferð partýinu mínu síðasta föstudag og lofaði ég nokkrum að senda uppskriftina á þá. Eins og gengur og gerist gleymdi ég hverjir það voru, svo ég hendi henni bara hér inn í þeirri von um að viðkomandi aðilar nálgist hana hér 🙂

Uppskriftin að kökunni er úr bókinni, en kremið er byggt á uppskrift í bókinni með mínu tvisti. Njótið og góða skemmtun!

Hnetusmjörscupcake

48 litlar eða 24 hefðbundin stærð

220 gr hveiti

1/4 tsk matarsódi

3/4 tsk lyftiduft

115 gr smjör

300 gr sykur

260 gr hnetusmjör, creamy

3 stór egg, eða 4 lítil

1/2 tsk vanilludropar

115 gr sýrður rjómi

110 gr salthnetur, grófsaxaðar

___

Byrjið á því að blanda saman hveiti, lyftidufti og matarsóda í einni skál. Í hrærivélarskál (eða í skál með þeytara) er svo sett smjör (ekki smjörlíki) og sykur og það þeytt vel saman. Þvínæst er hnetusmjörinu blandað vel saman við og þá eggjunum bætt útí, eitt í einu og blandað vel á milli. Vanilludropum blandað saman við og helmingnum af hveitiblöndunni, þá helmingnum af sýrða rjómanum, restinni af hveitiblöndunni og loks restinni af sýrða rjómanum. Ekki hræra of mikið þegar allt er komið í skálina, heldur rétt bara til að allt sé vel blandað. Þá er grófsöxuðu hnetunum bætt útí.

Bakað við 180°C í 13-20 mín (fer eftir stærð), tékkið með tannstöngli eða prjóni, potið í köku og ef hann kemur hreinn út þá er kakan tilbúin. Leyfið kökunum að kólna á eldhúsbekk áður en kremið er sett í.

___

Hnetusmjörskrem

170 gr rjómaostur, mjúkur

260 gr hnetusmjör (creamy)

1/2 tsk vanilludropar

250 gr mjúkt smjör (alls ekki smjörlíki)

ca 1,5 dl rjómi

3-400 gr flórsykur

Byrjið á því að hræra vel saman rjómaosti, smjöri og hnetusmjöri (ég nota þeytarann í hrærivélinni). Blandið því næst vanilludropunum útí og smátt og smátt flórsykri og rjóma. Þeytið í nokkrar mínútur til að fá loft í kremið. Ef það er of lint til að sprauta á kökurnar má skella því inní kæli í hálftíma.

___

Ég boraði endanum á trésleif ofan í hverja köku þegar þær höfðu kólnað niður í stofuhita, fyllti með ca 1/2-1 tsk af jarðaberjasultu og sprautaði svo kreminu ofan á. Martha setti sultuna ofan á kremið, en mér leist betur á hitt. Sannkölluð sykursæla 🙂