Kínóa- og linsuborgarar

Published 18 febrúar, 2013 by fanney

Kínóa (quinoa) er nú meiri snilldin! Það er svipað og kúskús (couscous) nema kínóa er fræ og glútenlaust, á meðan kúskús er búið til úr hveiti (semolina) og vatni. Kúskús er tæp 4% prótín á meðan kínóa er um 14% prótín. Fyrst þegar ég prófaði að elda kínóa notaði ég það aðallega í salöt og súpur. Í veikindunum síðustu viku hef ég haft ansi drjúgan tíma aflögu til að grúska og fann fullt af girnilegum uppskriftum sem mig langar til að prófa, m.a. með kínóa. Má þar t.d. nefna sushi með kínóa og þessa kínóa- og linsubaunaborgara.

Upprunalegu uppskriftina má finna á þessu skemmtilega bloggi, þar sem er aragrúi girnilegra og hollra uppskrifta. Ég á án efa eftir að prófa fleiri uppskriftir af þessu bloggi! Eins og mín er von og vísa varð ég að sjálfsögðu að breyta uppskriftinni aðeins, mestmegnis sökum þess ég átti ekki allt til sem var í uppskriftinni. Einnig er ég ekki með matvinnsluvélina mína hérna í Noregi, svo ég varð aðeins að spinna mig áfram þar.

Til að gera langa sögu stutta þá eru þessir borgarar þeir bestu sem ég hef smakkað hingað til! Ég prófaði bæði að steikja þá á pönnu og baka í ofni. Báðar útgáfur komu vel út, en ég var hrifnar af steiktu borgurunum. Þeir fengu stökkari húð og voru ekki eins blautir inní. Kannski ég hafi þurft að baka hina aðeins meira til að fá svipaða niðurstöðu?

Þessa hollu borgara má borða eins og hamborgara, þ.e. á brauði með sósu og salati, það er hægt að setja þá í tortillavefju með grænmeti og djúsí sósu, borða með sætkartöflufrönskum og grilluðu grænmeti eða hvernig sem ykkur dettur í hug. Í kvöld borðaði ég þá með salati og dressingu úr sýrðum rjóma. Delíss! Ekki verra að eiga núna dýrindis buff, tilbúin inní frysti 🙂

___

Kínóa- og linsuborgarar

12 litlir borgarar – f. 4 manneskjur

80 gr rautt kínóa (1/2 bolli), hægt að nota hvítt kínóa líka eða blöndu

2 dl vatn

1 egg

2 gulrætur, fínt rifnar

1 lítill laukur, fínt rifinn

3 hvítlauksrif

1 tsk cummin

1 tsk kóríander

ca 1 dl glútenlausir hafrar, brauðmylsna eða önnur sterkja til að binda saman

1 dós niðursoðnar linsur (svartar baunir, nýrnabaunir, grænar linsur.. hvað sem er!)

salt og pipar

___

Byrjið á því að setja vatnið í lítinn pott, salta smá og koma upp suðu. Þegar suðan er komin upp er kínóa hellt útí og því leyft að malla á lágum hita, undir loki, í 12-14 mínútur, eða þar til allur vökvinn hefur skriðið inní kínóað. Á meðan er restinni blandað saman. Ef þið eigið matvinnsluvél þá byrjið þið á því að setja gulræturnar í hana og saxa fínt, blandið svo restinni (þar með talið soðna kínóað) útí vélina og mixið í stuttum lotum þar til þetta er orðið að kássu, en ekki of maukað. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél getið þið rifið niður gulræturnar í skál, rifið niður laukinn (eða saxað mjög fínt) og hvítlaukinn og sett restina útí. Ég á töfrasprota svo ég leyfði honum aðeins að taka smá snúning í skálinni, en þó ekki þannig að þetta verði að barnamat! Leyfið blöndunni að hvílast í ca hálftíma, þá ná hafrarnir/brauðmylsnan að draga í sig hluta af vökvanum og það verður auðveldara að meðhöndla blönduna við eldun.

Ef þið eigið ísskeið með sleppara, þá mæli ég eindregið með því að þið notið hana. Þannig verður buffgerðin leikur einn! Ef þið eigið enga slíka, þá er bara að nota tvær stórar skeiðar – eða venjulegar skeiðar – bara eftir því hvað þið viljið hafa buffin stór. Ég notaði stærri ísskeiðina mína og fékk út 12 buff.

Ef þið viljið baka buffin í ofni, þá notið þið bökunarpappír og hafið ofninn stilltan á 175°C. Bakið í 15-20 mín og snúið buffunum eftir 8-10 mínútur. Ef þið viljið steikja, steikið í smá olíu á miðlungshita í 6-8 mínútur, eða þar til þið hafið fengið góðan gullin lit.

 

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: