Tarte aux citron – sítrónubaka

Published 21 desember, 2012 by fanney

Tarte aux citron – sítrónutart – sítrónubaka – sítrónukaka… hvaða nöfnum sem þessi unaður kann að heita, þá er þessi kaka eins sú besta. Ég kynntist henni fyrir alvöru þegar ég heimsótti Nonna vin minn í Cannes í Frakklandi núna í nóvember. Frakkar kunna náttúrulega allra þjóða best að útbúa guðdómlega góða OG fallega eftirrétti. Ég náði að smakka þónokkrar tegundir en sítrónubakan hafði svo sannarlega vinninginn. Já og makkarónurnar, þær voru nú meiri unaðurinn. Sú besta var karamellumakkaróna með dulce de leche og fleur de sel á milli. Ég er viss um að ég væri allnokkrum tonnum þyngri, byggi ég í Frakklandi. Kannski eins gott að heimsóknin varði bara í tíu daga 🙂

En aftur að sítrónubökunni. Hún er alls ekki erfið, en þarfnast örlítillar væntumþykju og ástar – eins og allur matur svosem. Til eru mismunandi útgáfur af bökunni þar sem fyllingin er bæði bökuð og óbökuð, rjómakennd eða súr, en þessi sem ég set upp hér er mín uppáhalds; óbökuð með súru sítrónukremi (sem eitt og sér er algjör snilld ofan á brauð eða hvaðeina). Varðandi formin, þá er upplagt að nota hefðbundið tart-form en venjulegt smelluform dugar líka fínt. Ef slíkt er ekki til á ykkar heimilum má alveg setja tartið í hvaða mót sem, t.d. kringlótt eldfast form, lítil creme bruleé form eða það sem þið finnið í skápunum. En lítum á uppskriftina.

sítrónubaka

___

Tarte aux citron – sítrónubaka

Bökubotn: (fenginn héðan)

175 gr hveiti

100 gr kalt smjör, í bitum

25 gr flórsykur

1 eggjarauða

 

1 – 2 msk ískalt vatn

__

Auðveldasta leiðin við að gera botninn er að setja allt nema eggjarauðu og vatn í matvinnsluvél og púlsa (kveikja og slökkva) þar til blandan líkist brauðmylsnu. Þá er eggjarauðu og 1 msk af vatni blandað saman við. Deigið á að vera nokkuð mylsnulegt, en þó þannig að hægt sé að þrýsta því í mótið. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél er hægt að blanda öllu nema rauðu og vatni saman í hrærivél, nota pískinn á hrærivélinni, og blanda þar til mylsnulegt. Setja þá rauðu og vatn. Ef þið eigið ekki heldur hrærivél, þá getið þið gert þetta í höndunum, mulið smjörið saman við hveitið og flórsykurinn með því að nudda saman höndunum. Reynið að vinna fljótt því við viljum ekki að smjörið bráðni fyrren það kemur inní ofn. Þannig fáum við stökkan botn. Að lokum er svo rauðu og vatni blandað saman. Þið getið flatt deigið út og sett það þannig í formið (eftir að hafa kælt deigið í 15-20 mín), en ég er svo bráðlát að ég þrýsti því bara í formið og passa að setja upp hliðarnar líka. Einnig þarf að passa að hornin/kantarnir séu nokkuð sterkir svo þeir haldi. En aðalmálið er að pressa þetta vel í formið og hafa jafnþykkt. Engin þörf á að smyrja formið. Setjið álpappír eða bökunarpappír ofan á botninn og fyllið bökuna með bökunarbaunum, þurrkuðum baunum eða hrísgrjónum. Þetta gerum við svo botninn okkar rísi ekki of mikið, því við viljum hafa nóg pláss fyrir gómsætu fyllinguna. Bakið við 180 °C í hálftíma, eða þar til botninn er bakaður og hefur tekið á sig gullin lit. Gott er að kíkja inní ofninn reglulega og athuga hvort hliðarnar eru að dökkna um of, ef það gerist er hægt að kippa honum út og setja álpappír yfir kantana. Ég baka botninn yfirleitt í 20 mínútur með baununum og tek hann þá út, tek baunirnar úr, set álpappír á hliðarnar og baka í 10 mín eða þar til botninn sjálfur er orðinn bakaður í gegn.

___

 

Fyllingin – sítrónukrem: (fengin héðan)

 

3 egg

1 eggjarauða

150 gr sykur

safi og skrall af 3 sítrónum

50 gr smjör, við stofuhita

__

 

Sé klikkað á linkinn hér að ofan má sjá myndband af því hvernig maður gerir svona sítrónukrem. Það er auðvelt, en maður þarf að sýna ferlinu þolinmæði og ást 🙂

Blandið saman eggjum, eggjarauðu, sykri og sítrónusafa og skralli í gler- eða stálskál og setjið yfir rétt aðeins sjóðandi vatn. Hrærið í stanslaust þar til blandan þykknar, getur tekið 10-15 mínútur. Hérna erum við í rauninni að elda eggin og rauðuna því það eru þau sem þykkja blönduna, svipað ferli og þegar maður gerir karamellubúðing. Passið því að hafa vatnið ekki of heitt (ekki bubblandi sjóðandi, bara svona simmrandi) og hrærið allan tímann (þarf ekkert að vera krafthrærun, bara svona dúbbídú ég er að hræra í skál). Þegar kremið hefur þykknað er það tekið af pottinum og smjörinu blandað útí, við það kemur æðislegur gljái á kremið sem og góður smjörkeimur til að balansera við sýrunni í sítrónunni. Það er svo undir yk

 

kur komið hvort þið viljið sigta blönduna eður ei, þ.e. sigta börkinn frá, en það þykir mér betra. Ég smelli því blöndunni í gegnum sigti og beint útá bökubotninn (sem hefur fengið að kólna). Setjið plastfilmu yfir kremið þannig að filman snerti kremið allstaðar, þannig fáum við ekki leiðinlega ,,filmu“ á kremið, svona eins og þegar sósur kólna.

Þessi baka er stórkostleg svona, borin fram með þeyttum rjóma, ís eða vanillusósu. En ef tilefnið er sérstakt, er algjörlega við hæfi að útbúa ítalskan marengs til að setja ofaná.

__

Ítalskur marengs:

2 dl  vatn

200 gr sykur

 

4 eggjahvítur

1/4 tsk salt

1 tsk sítrónusafi

__

Setjið vatn og sykur í pott og hitið uppí 125°C. Þegar sírópið hefur náð ca 100 gráðum, byrjið þið að þeyta eggjahvíturnar ásamt salti og sítrónusafa. Þeytið þær þar til stífþeyttar, en ekki þurrar. Þegar sírópið er orðið 124°c er það tekið af hitanum (það heldur áfram að hitna) og hellið ofurvarlega í eggjahvíturnar Á MEÐAN ÞÆR ERU ÞE

YTTAR ÁFRAM. Við erum að tala um bara dropa og dropa, eða örmjóa bunu til að byrja með því við viljum ekki enda með hrærð egg, heldur dúnmjúkt krem. Hafið því hrærivélina hratt stillta og hellið öllu sírópinu varlega útí, haldið svo áfram að hræra þar til skálin kólnar og er orðin stofuheit eða svo. Þá getið þið stoppað vélina og verið fullviss um að eggin séu ekki að fara eldast 🙂 Þessum marengsskýjum er svo dúbbað yfir kalda sítrónubökuna og smá flórsykri stráð yfir. Getur staðið í nokkrar klukkustundir en er best samdægurs. Einnig er hægt að nota gasbrennara og brenna toppinn örlítið og fá svona sykurpúðafíling 🙂

___

Ég veit þetta er löng uppskrift, en ef þið hafið lesið í gegnum allt þá sjáið þið að þetta er ekkert mál, tekur bara smá tíma. En afraksturinn er algjörlega þess virði, því lofa ég! Ef þið eruð ekki mikið fyrir súrt, þá er sjálfsagt að blanda saman smá þeyttum rjóma við sítrónukremið og fylla bökuna með því. Ekki síðra!

Gangi ykkur vel og verði ykkur að góðu!!!

 

xxx

Fanney Dóra

Auglýsingar

One comment on “Tarte aux citron – sítrónubaka

 • Ég fæ vatn í munninn, verð að prufa þessa. Fengum unaðslega góða sítrónu böku í Menton, kveðja Svanfríður

 • Færðu inn athugasemd

  Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

  WordPress.com Logo

  You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

  Twitter picture

  You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

  Facebook photo

  You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

  Google+ photo

  You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

  Tengist við %s

  %d bloggurum líkar þetta: