Hard Wok Café!

Published 25 október, 2011 by fanney

Ég stenst bara ekki mátið að skrifa hérna aðeins um frábæra – og aldeilis óvænta – matarupplifun sem ég lenti í um daginn. Það er líka orðið svo gasalega langt síðan ég hripaði eitthvað niður annað en uppskriftir, kominn tími til!

En já, ég var sumsé stödd í Skagafirði í vinnuferð frá miðvikudegi og fram til föstudags núna október. Skagafjörður hefur ansi gott nafn á sér hvað matarmenningu varðar, og má eflaust þakka það að einhverju leiti verkefninu Matarkistan Skagafjörður. Að verkefninu standa helstu aðilar sem koma að matarmenningu á svæðinu, s.s. veitingastaðir, ferðaþjónustuaðilar auk Hólaskóla, Háskólans á Hólum. Verkefnið hófst árið 2004 og eitt af aðalmarkmiðum þess er að þróa matarferðaþjónustu á svæðinu, stuðla að samstarfi aðila sem starfa innan geirans sem og að gera skagfirsk matvæli að aðdráttarafli fyrir ferðamenn á svæðinu (upplýsingar af vefsíðu verkefnis).

Sauðárkrókur er einmitt í Skagafirði. Mér hefur alltaf fundist Krókurinn svolítið skondinn bær. Gríðarlega aflangur á sléttunni – en með svona Beverly Hills hverfi uppí hlíðinni. Appelsínuguli framhaldsskólinn setur svo dásamlega skemmtilegan punkt yfir i-ið, að ófrátöldu ráðhúsinu sem er yndislega næntís-litað. Skaffó (Skagfó – Skagfirðingabúð – beisikklí bara Kaupfélagið) er svo búð sem nauðsynlegt er að koma við í þegar maður rennir inná Krók. Þar má finna allskonar dótarí, meira úrval af matvöru en í Hagkaup, meira garnúrval en á öllum sauðfjárstofninum, búsáhöld og gjafavöru við allra hæfi (líka þeirra smekklausu) og svo mætti lengi telja. Apótekið á Króknum er líka gullnáma; ég náði mér t.d. í tvennar litaðar Orublu-sokkabuxur á 4.000 kr og svo var gríðarlegur afsláttur af allskonar meiköppi. Það er svosem þannig, að apótekin í litlu bæjunum eru best. Það toppar t.d. ekkert apótek Apótek Ólafsvíkur, það er bara þannig. Annað sem er stórkostlegt (skilst mér) á Króknum er tískuvöruverslunin (eða ætli þær séu fleir en ein?). Ég man eftir því þegar Tinna Mjöll vinkona, Sauðkræklingur (!) af guðs náð, mætti í hverri flíkinni á fætur annarri og hver annarri smartari – og allt úr tískubúðinni á Króknum. Kannski svipað og ég og mínar flíkur frá Blómsturvöllum? Ég verð þó að viðurkenna að ég hef enn ekki gerst svo heppin að hafa komist í þessa verslun því hún hefur alltaf verið lokuð þegar ég er á svæðinu.

Bakaríið á Sauðárkróki er snilld! Úrvalið þar er stórkostlegt og fjölbreytnin alveg ömurleg fyrir manneskju með valkvíða. Þar má finna allskyns langlokur (baguette, ciabatta og hvað það nú heitir allt) með girnilegu og fersku áleggi, bæði til að hita og borða kalt. Þar er líka hægt að fá virkilega góð ,,orkustykki“ – með og án súkkulaðis. Brauðúrvalið er ekki amalegt en sætabrauðsúrvalið er rosalegt! Ég taldi t.d. 6 mismunandi cupcakes í miðri viku! Ég hef allnokkrum sinnum farið í þetta bakarí, aldrei fengið mér það sama en aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Salurinn er mjög kósý, svolítið bara eins og eldhús. Heimamenn virðast einnig vera á sama máli, því það er alltaf vel setinn bekkurinn þegar ég hef mætt. Hvort heldur sem er í hádeginu, snemma morguns eða um miðjan dag.

Á Sauðárkróki eru m.a. veitingastaðirnir Kaffi Krókur og Ólafshús, sem reknir eru af sama aðila. Ég hef nú ekki mikla reynslu af því að snæða á þessum stöðum, aðra en þá að við fengum pítsuhlaðborð á Kaffi Krók eitt kvöldið núna í október. Pítsurnar voru þunnar og botninn mátulega stökkur, sósan dásamlega bragðmikil og áleggið í góðu samræmi við botninn og sósuna. Mér skilst að það sé ansi gott rennerí af vinnumönnum í hádeginu, enda sé boðið upp á þægilegan og heimilislegan (hvað sem það nú þýðir) mat af hlaðborði.

EN… rúsínan í pylsuendanum er klárlega staðurinn Hard Wok Café sem opnaði í maí á þessu ári. Eigendur fá klárlega amk fimm prik fyrir skemmtilegt nafn. Önnur fimm fá þeir svo fyrir vegglistaverkið inná staðnum, en þar stendur málað stórum stöfum: You´ll never Wok alone! Ess-valt eins og sumir myndu segja. Staðurinn er, eins og glöggir lesendur hafa áttað sig á, asískur og með flottan seðil. Okkur var þó boðið upp á hlaðborð í hádeginu, hlaðborð sem samanstóð af grísakjötsrétti, núðlum með kjúklingi og grænmeti, djúpsteiktum rækjum, hrísgrjónum og súrsætri sósu. Byrjum á grísakjötinu. Fyrir það fyrsta er ég lítið hrifin af svínakjöti yfir höfuð, en þetta kjöt var svo meyrt og safaríkt og með svo akkúrat elduðu grænmeti að annað var ekki hægt en að slafra þessu í sig með bestu lyst. Núðlurnar voru ofsalega góðar, algjörlega al dente með nóg af grænmeti, eggi og kjúklingi. Djúpsteiktu rækjurnar. Já, þessar djúpsteiktu rækjur voru þær allra allra bestu sem ég hef smakkað. Punktur. Alls ekki seigar og fitugar eins og oft vill verða, heldur í þessu unaðslega létta deigi sem var svo stökkt og brakandi gott. Súrsæta sósan var eiginlega það eina sem ég var ekki fyllilega ánægð með. Að mínu mati vantaði í hana sýru, lit og sætu, það var ekki nógu mikið súrsætt bragð. Algjörlega fyrirgefanlegt þó í ljósi unaðssemdarinnar sem þessar rækjur voru. Svo er þetta með hrísgrjónin… af hverju er alltaf bara boðið upp á hvít grjón þegar brún grjón og hýðishrísgrjón eru svo miklu betri á bragðið og með skemmtilegri áferð en þau hvítu?

Það eitt er víst að ég á klárlega eftir að gera mér spes ferð í Skagafjörðinn til þess að fara aftur á Hard Wok Café. Besti asíski matur sem ég hef fengið hérlendis. Svo skemmir klárlega ekki að hægt er að smella sér í sundlaugina á Hofsósi á leiðinni heim 🙂

5 comments on “Hard Wok Café!

  • Ó en gaman að lesa þessa færslu um mína heimabyggð. Sammála þér með bakaríið, unaður! Og vonandi verður þessi kínverski staður ennþá lifandi þegar ég fer næst á Krókinn 🙂 knús, einn mánuður!

  • Við þökkum þessi hlýju orð og gaman að heyra að þér líkaði maturinn hjá okkur.
    Og við tökum svo sannalega undyr með bakaríið allgjör snilld !
    Kollegar okkar á Ólafshúsi eiga svo ekkert annað en hrós skilið og ég mæli svo sannalega með matnum þar. kv Árni og Ragga Hard Wok Cafe

  • Gaman að lesa þessa grein um Krókinn. Yndislegur bær sem hefur svo sannarlega upp á margt gott að bjóða. Þessi kona á hrós skilið – það eru bara ekkert allir sem segja frá góðu upplifununum sínum. Ég ætla sko sannarlega að fara að heimsækja Árna og Röggu sem fyrst. Hef ekki heyrt neitt nema gott um þennan nýja veitingastað.

  • Ég get tekið undir þetta allt. Vil líka bæta við að maturinn á Ólafshúsi er einnig góður. Hef margorft borðað þar og ekki orðið fyrir vonbrigðum.

  • Skildu eftir svar við Kristín Snæland Hætta við svar