Piparkökur með súkkulaðibitum

Published 23 nóvember, 2012 by fanney

Það er komið að einum skemmtilegasta tíma ársins að mínu mat – undirbúningstíma jólanna. Ég hef óskaplega gaman af því að baka og dúllast í eldhúsinu, prófa nýjar uppskriftir sem og gera þessar gömlu góðu sem klikka aldrei. Þar sem ég er nú búsett í Noregi er margt nýtt sem ég þarf að kanna, og leiðist mér það alls ekki! Uppáhaldið mitt hingað til eru krumkaker, sem eru örþunnar kökur bakaðar á n.k. vöfflujárni (eða krumkakejern) og meðan þær eru enn heitar eru þær mótaðar eins og ísform. Þær má svo fylla með því sem manni dettur í hug, en hefðbundið er að blanda saman þeyttum rjóma og multuberjum (gul ber, svipuð og hindber nema mun sérstakari á bragðið) eða multuberjasultu og fylla herlegheitin með því. Ægilega gott – og núna hreinlega verð ég að eignast svona járn!

En í dag er örlítið einfaldari uppskrift í boði hér, uppskrift sem ég rakst á inná Pinterest, póstaði á fésbókinni minni og lofaði að þýða fyrir vinkonu mína. Ég tek uppskriftina héðan, af norsku bloggi sem mér finnst yndislega girnó, en upprunalega er uppskriftin frá Mörthu Stewart. Ilmurinn af þeim er unaðslegur og þær smakkast ægilega vel 🙂

___

Piparkökur með súkkulaðibitum

110 gr mjúkt smjör

200 gr púðursykur

1 msk ferskt engifer, fínt rifið

1/2 dolla síróp (eða um 125 gr)

1 tsk natron + 3 msk sjóðandi vatn

275 gr hveiti

1 1/4 tsk engifer

1 tsk kanill

1/4 tsk negull

1/4 tsk múskat

1 msk kakó

200 gr dökkt súkkulaði

perlusykur, ef vill

___

Byrjið á því að blanda saman smjöri, fersku engifer og púðursykri og hræra það vel saman þar til það verður aðeins ljósara að lit. Blanda þurrefnum saman í skál – að undanskildu natroni – og saxa súkkulaðið smátt (þó ekki jafn smátt og súkkulaðispænir, eða það finnst mér ekki gott, ég vil finna fyrir súkkulaðinu í kökunum). Blandið saman natroni og sjóðandi vatni í lítilli skál/glasi. Þegar smjörblandan hefur fengið að finna fyrir því í nokkrar mínútur er helmingnum af þurrefnunum skellt útí og blandað þar til vel samlagað. Þá er natronvatninu hellt útí og blandað vel og svo restinni af þurrefnunum. Þegar allt er vel blandað er súkkulaðinu smellt í skálina.

Ókei, svo kemur að því í uppskriftinni að maður eigi að kæla deigið. Þvínæst er deiginu skipt upp í kúlur sem eru 3-4 cm að þvermáli, þeim smellt í ísskápinn í 20 mín og þvínæst rúllað uppúr perlusykri og bakaðar. Ég fór öðruvísi að… ég notaði Oxo ískúluskeiðina mína (með sjálfvirka slepparanum – helber snilld í baksturinn!) og gerði myndarlegar hlussur og bakaði strax. Hvora aðferðina sem þið notið, þá er ofnhitinn 170°C og þær skulu bakast í 10-12 mín. eða þar til yfirborðið fer að springa. Þegar þær koma úr ofninum eru þær mjög mjúkar og þurfa nokkrar mínútur á bökunarpappírnum til að ná sér niður – áður en þær eru færðar á rist til að kólna alveg.

ATH! Þær renna talsvert mikið út (skv minni aðferð amk) svo gerið ekki ráð fyrir fleiri en 9 stk á hefðbundna bökunarplötu.

Ég átti ekki ferskt engifer né múskat og ég notaði hvítan sykur. Að auki nennti ég ekki kælistússinu hér að ofan. Hefði ég gert það, þá hefði ég mun fegurri kökur. En þær sem ég hef eru æðislega góðar. Gott kryddbragð, seigar í miðjunni og stökkar á köntunum. Súkkulaðibitarnir eru svo skemmtilegt sörpræs 🙂

UPPFÆRSLA: daginn eftir urðu þessar kökur alveg grjótharðar (mikill sykur?) og ekkert spes. Því miður! Kannski ef ég hefði farið algjörlega eftir upprunalegu uppskriftinni, sæti ég glaðari með kökurnar. Veit ekki… en alla vegana, þið vitið af þessu 🙂

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: