Banana „Whoopie-pie“ með allskonar

Published 11 september, 2012 by fanney

Það er alltaf jafn ofurljúft að koma heim í Ólafsvík til mömmu og pabba. Þessi tilfinning ,,að vera heima“ er ómetanleg. Þrátt fyrir að hafa flutt úr foreldrahúsum fyrir mörgum árum, þarf ég ennþá að ,,taka rúntinn“ þegar ég kem heim. Í þessum rúnti felst að ganga um allt húsið og sjá hvort eitthvað sé breytt, opna ýmsa skápa og skoða hvað megi þar finna og auðvitað opna ísskápinn og kanna innihaldið. Undirstöðuatriði við heimkomu.

Síðustu daga hef ég verið hérna í Ólafsvík, en í dag þarf ég að fara aftur norður á Akureyri til að klára að pakka niður íbúðinni minni. Ég vildi óska þess að ég gæti verið lengur hérna. Best væri þó ef ég gæti pakkað á daginn meðan mamma og pabbi vinna, og varið kvöldunum með þeim. En það er víst aðeins of langt á milli Akureyrar og Ólafsvíkur…

Ýmislegt hefur gengið á í eldhúsinu í Engihlíðinni síðustu daga. Meðal annars komu frænkur mínar tvær í heimsókn og við systurnar gerðum sushi með þeim systrum handa foreldrum okkar. Stórglæsileg veisla í alla staði með fersku – OG djúpsteiktu sushi. Lilsys gerði svo hina velþekktu snickers-tertu frá Ebbu sem er alltaf jafn góð. Lambaskankarnir hans Jamie mölluðu hérna í gærkvöldi og ég gerði mús úr venjulegum og sætum kartöflum, rjómaosti með kryddjurtum og sítrónusafa. Þá hefur pönnukökupannan aðeins fengið að púla, á henni hafa bæði verið gerðar skonsur og ógrynni af pönnukökum. Það er leitun að öðru eins bakkelsi eins og pönnukakan okkar er!

Í gærmorgun kveikti ég á Food Network þegar ég fór framúr og sá þá þátt sem fjallar um breskan mann sem skoðar götumat (street food). Hann fór á markaði og smakkaði á þeim skyndibita sem verið var að selja, margt alveg ótrúlega girnilegt og jafnvel hollt! Svo kíkti hann í bakarí til tveggja Ameríkana sem fluttu til Bretlands, en eftir nokkur ár fóru þeir að sakna ammríska bakkelsins og hófu bakstur. Þeir seldu baksturinn á götumörkuðum og þetta varð svona líka fáránlega vinsælt að í dag eru þeir með verslun, hafa gefið út uppskriftabók og ég veit ekki hvað og hvað. Bakaríið heitir því skemmtilega nafni Outsider Tart og verður pottþétt heimsókn næst þegar ég á leið um London. Allavegana, í þættinum gerðu þeir banana whoopie-pie með súkulaðibitum og valhnetum og á milli var hnetusmjörskrem. Þetta hljómaði alltof vel þarna í gærmorgun svo ég varð að prófa. Eftir pínu gúggl fann ég enga uppskrift að þessu frá þeim svo ég varð að græja þetta sjálf. Þetta er afraksturinn og get ég algjörlega mælt með þessu fyrir þá sem fíla hnetusmjör. Annars er lítið mál að gera annað krem á milli, ef hnetusmjörsástin er ekki sterk.

Og já, hvað er whoopie-pie? Ætli sé ekki best að lýsa því fyrirbæri þannig: litlar mjúkar kökur með kremi á milli! Svipaðar og smákökur, nema þykkari og mýkri – svipaðar og tertur, nema minni! Þetta er enginn megrunarmatur, en maður er heldur kannski ekkert að hugsa um það á meðan maður japlar á þessar unaðssemd!

___

Banana whoopie-pie með súkkulaði og pekanhnetum og rjómaostahnetusmjörskremi

250 gr hveiti

1/2 tsk salt

1/2 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

1 banani, stappaður gróflega, ekki alveg í mauk

240 gr súrmjólk

110 gr smjör, brætt

220 gr sykur

200 gr púðursykur

1 egg

1 tsk vanilludropar

Væn lúka pekanhnetur, saxaðar

væn lúka dökkt súkkulaði, saxað (eða dökkir súkkulaðidropar)

___

Byrjið á því að hræra vel saman smjöri, púðursykri og sykri. Sigtið hveiti, salt, lyftiduft og matarsóda saman í skál. Í annarri skál blandið þið saman súrmjólkinni, vanilludropum og banananum. Þegar sykurblandan hefur verið hrærð í 2-3 mínútur er egginu bætt útí, svo helmingnum af hveitinu og helmingnum af bananablöndunni og svo restinni. Ekki hræra meira en þarf. Síðast er hnetunum og súkkulaðinu bætt útí.

Mér finnst ískúluskeiðara með ,,sleppara“ algjör snilld og notaði slíka við að setja deigið á plötur. Ef þið eigið ekki svoleiðis er vel hægt að nota matskeiðar. Deiginu er smellt á plötur líkt og verið sé að baka smákökur, en gætið að hafa gott bil á milli þeirra þar sem þær renna aðeins út. Ca væn matskeið af deigi og ca 6 sm á milli. Þetta er svo bakað við 170°C þar til þær taka smá lit á jöðrunum, eða í 15-18 mín. Leyfið að kólna vel áður en kremið er sett á milli.

___

Rjómaostahnetusmjörskrem

200 gr rjómaostur, við stofuhita

100 gr smjör, við stofuhita

150 gr hnetusmjör, gróft eða fínt (ég notaði hnetusmjörið frá Sollu svo kremið mitt varð ekkert alltof sætt)

ca 150 gr flórsykur

dass vanilludropar

__

Hrærið vel saman rjómaosti, smjöri og hnetusmjöri þar til kekkjalaust og vel blandað. Bætið þá flórsykrinum smám saman útí þar til kremið verður mjúkt og gott. Passið að setja ekki of mikinn flórsykur, kremið á ekki að vera dísætt.

___

Þegar kökurnar hafa kólnað er kreminu smurt eða sprautað á eina köku og önnur sett ofan á og þannig mynduð samloka. Ekki flóknara en það! 🙂 Njótið og verði ykkur að góðu!

Gott bil á milli

 

Bakaðar og sætar

 

Sátt með afraksturinn

Auglýsingar

2 comments on “Banana „Whoopie-pie“ með allskonar

 • Færðu inn athugasemd

  Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

  WordPress.com Logo

  You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

  Google+ photo

  You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

  Twitter picture

  You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

  Facebook photo

  You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

  w

  Tengist við %s

  %d bloggurum líkar þetta: