Frida Kahlúa terta (BOMBA!)

Published 29 desember, 2011 by fanney

Í kökublaði Gestgjafans árið 2009 rakst ég á megaman girnilega uppskrift að tertu sem nefnist Frida Kahlúa terta með chili-krókant. Uppskriftin er frá Ernu Lúðvíksdóttur sem er sko kona að mínu skapi. Um leið og ég las yfir hráefnislistann vissi ég að ég yrði að prófa þessa tertu. Hún var bara of spennandi til að sleppa því. Tertan var alltaf í kollinum, en einhvern veginn fann ég ekki tilefnið – eða tíma – til að skella í dýrðina.

Helgina fyrir jól var ég svo með matarboð ásamt eiginmanni vinkonu minnar. Matarboðið var að sjálfsögðu skipulagt frá a til ö af okkur og gestirnir fengu lítið að vita í fyrstu. Eftir tveggja mánaða bið var svo komið að kvöldinu og þessi elska fékk að setja punktinn yfir aldeilis myndarlegt i, sem kvöldið sjálf var. Það er skemmst frá því að segja að allir elskuðu Fridu Kahlúa, enda annað ekki hægt! Í Gestgjafanum stendur ,,Seiðandi heit og dulmögnuð“ og var ég lengi vel ekki viss hvort átt væri við tertuna eða höfund hennar, téða Ernu. Nú er ég amk viss um að þetta á svo sannarlega við tertuna, en Ernu þekki ég ekki svo ég get ekki tekið allan vafa af þar. Tertan er ekki of sæt og ekki of exótísk (þrátt fyrir chilli!), ekki of hörð og ekki of mjúk, ekki of mikið súkkulaði og ekki of væmin.. hún bara ER. Og ekkert bara, hún er með stökka marengsbotna og flauelismjúka frómasa sem harmónera virkilega vel saman. Chilli-og pekanhnetukrókantinn kemur svo með skemmtilegt tvist á þetta, án þess þó að vera of yfirgnæfandi. Ég reyndar breytti uppskriftinni aðeins (söpplæææs!), tók út apríkósumarmelaði sem átti að fara ofan á fyrri marengsinn, breytti apríkósufrómasinum í ástríðuávaxtafrómas (passion fruit) og gerði kökuna í venjulega stærð af smelluformi (ca 26 cm) í stað 20 cm smelluforms. Allt þetta eru breytingar sem ég er viss um að hafi gert tertuna mun betri fyrir mína bragðlauka (er ekkert alltof hrifin af apríkósum).

En gott fólk… eru ekki allir sitjandi? Þetta er ruuuusaleg uppskrift! Ég vona að ég verði ekki kærð fyrir að dreifa uppskriftinni, en eins og áður sagði þá er þetta ekki mín hugsmíði, heldur verð ég bara að leyfa fleirum að njóta þessarar elsku. Uppskriftin hérna er ekki alveg eins og hún kemur fyrir í blaðinu, ég útskýri mínar breytingar og set þetta í þá röð sem mér þykir þægilegt að vinna. Og folks, ekki láta langan hráefnislista og mikla lesningu hræða ykkur, þetta er í alvörunni EKKERT mál. Tekur bara aðeins lengri tíma en að skella í eina Betty, en ég lofa ykkur því að þeim tíma er vel varið og útkoman verður ólýsanleg. Vinkona mín sagði að það að borða þessa tertu væri eins og ef maður skæri rassinn af engli og borðaði hann, himneskt! Það er hægt að gera marengsbotnana með góðum fyrirvara, sem og krókantinn. Hitt er svo bara hálftími eða sirka svo. Í alvöru, ekkert mál!

Takk Erna, Fanney Dóra ♥ Frida Kahlúa-tertan.

___

Frida Kahlúa-terta með chilli-krókant

f. 8-10 (en maður grætur ALLS ekki að eiga afganga til næsta dags.. og næsta.. og næsta…)

Marengsbotnar:

2 eggjahvítur

1 dl sykur

50 gr hakkaðar möndlur

___

Hitið ofninn í 110°C. Teiknið tvo hringi eftir 20 cm smelluformi á bökunarpappír, snúið honum við og hafið tilbúinn á bökunarplötum (Ég teiknaði vissulega 20 cm hringi og hafði marengsinn í þeirri stærð, sem var bara virkilega smart þó svo að ég væri með stærra smelluform fyrir frómasinn. Þegar ég geri þessa tertu aftur, sem verður núna um helgina, mun ég gera botnana í kringum 20 cm í þvermál). Stífþeytið eggjahvítur og sykur saman (alveg í korter) og skiptið blöndunni í tvennt og blandið möndlunum saman við helminginn. (Ég tók sirka helminginn og dembdi honum á annan bökunarpappírinn, gott að tilla honum á bökunarplötunni með því að setja smá doppur af marengs (tsk eða svo) undir hvert hornið og þrýsta niður. Þvínæst blandaði ég möndlunum saman við restina af marengsinum og dembdi því á hina bökunarplötuna). Bakið í 1 klst og látið kólna í ofninum (mamma kenndi mér að gott væri að baka marengsinn að kvöldi til og slökkva svo bara á ofninum eftir klukkutíma og leyfa botnunum að verja nóttinni inní ofninum. Morguninn eftir eru þeir gullfallega þurrir og tilbúnir!). Þessa botna má geyma í einhverja mánuði, en möndlurnar gætu þránað. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að gera botnana með nokkurra daga fyrirvara.

___

Chilli-krókant:

80 gr sykur

1 msk rautt chilli, fínt saxað

40 gr saxaðar pekanhnetur

___

Byrjið á því að saxa chilli virkilega smátt og grófsaxa pekanhneturnar, haldið til hliðar. Bræðið þvínæst sykurinn á pönnu og bætið chilli og hnetum útí þegar hann er bráðinn. Hellið blöndunni á bökunarpappír, dreifið aðeins úr og látið kólna. Þegar þetta er kalt er þetta mulið niður og geymist ágætlega.

___

Þegar hér er komið við sögu er farið að setja kökuna saman. Það er lítið mál elskurnar, galdurinn liggur í matarlíminu og loftinu í rjómanum og eggjablöndunni!

___

Kahlúa-frómas:

4 matarlímsblöð

1 egg

1 eggjarauða

1 dl sykur

1 dl Kahlúa-líkjör

2,5 dl rjómi, stífþeyttur

___

Byrjið á því að leggja matarlímið í bleyti í kalt vatn (setjið bara kalt vatn í djúpan disk og leggið matarlímsblöðin þar ofan í, eitt af öðru. Þau mega snertast og skarast, en mér þykir betra að setja þau eitt í einu og krossa þau (sikksakk), þannig festast þau síður saman). Þeytið þvínæst rjómann og geymið í skál. Stífþeytið egg, eggjarauðu og sykurinn saman (þar til liturinn verður fölgulur og mikið loft er komið í blönduna). Setjið ca 3-4 msk af Kahlúa í pott og hitið, ekki sjóða. Blandið matarlímsblöðunum útí pottinn, eitt í einu og pískið vel á milli svo blöðin leysist alveg upp (þetta er mikilvægt, ekki viljum við matarlímstyggjóklessur í frómasíunni okkar!). Blandið svo restinni af líkjörnum saman við og hellið útí eggjahræruna. Blandið svo eggjahrærunni varlega saman við þeytta rjómann (mér finnst best að blanda hrærunni smátt og smátt útí rjómann, og blanda varlega með sleif. Ekki hræra kröftuglega, við viljum halda loftinu í bæði rjómanum og eggjablöndunni, svo frómasinn verði léttur og flauelismjúkur). Voilá! Þarna erum við komin með frómas, ekki erfiðara en svo! Þetta má nota eitt og sér sem eftirrétt, setja í litlar skálar eða eina stóra, og bera fram með þeyttum rjóma og súkkulaðihúðuðum kaffibaunum eða hvaðeina!

Höldum þó áfram með Fridu Kahlúa-tertuna… Takið smelluformið ykkar (muniði, ég notaði ca 26 cm), smyrjið og setjið bökunarpappír í botninn sem er aðeins minni en formið sjálft. Byrjið á því að setja marengsbotninn með möndlunum í botninn á forminu. Erna smurði sinn botn með 3 msk af Dalford-apríkósmarmelaði, en ég sleppti því. Þvínæst er chilli-krókantinn mulinn yfir botninn (ég notaði bara 2/3 af honum, setti restina ofan á sem skraut). Núna hellið þið Kahlúa-frómasinum varlega yfir, reynið að passa að krókantinn færist ekki allur á einn stað heldur haldist dreifður. Skellið í kæli á meðan seinni frómasinn er útbúinn.

___

Apríkósu-, chilli- og vanillufrómas (EÐA Ástríðuávaxta-, chilli- og vanillufrómas)

1 dl apríkósusafi (úr niðursuðudós) – ég notaði 1 dl ástríðuávaxtamauk sem ég fann í Hagkaup. Það væri samt tilvalið að nota sjálfan ástríðuávöxtinn, en sigta þá bara frá steinana. Þannig verður frómasinn mun bragðmeiri og ,,súrari“ sem passar roooosalega við vel mýktina í kahlúa-frómasinum, sem og sterka chillibragðið.

1/2 msk rautt chilli, fínt saxað

1 vanillustöng

4 matarlímsblöð

1 egg

1 eggjarauða

2/3 dl sykur

nokkrir dropar gulur matarlitur

2,5 dl rjómi

___

Aftur – byrjið á því að þeyta rjómann og geyma. Leggja matarlímið í bleyti og stífþeyta egg, eggjarauðu og sykur. Bræðið hluta af  apríkósusafanum, eða það sem þið kjósið að nota, blandið einu matarlímsblaði í einu útí og pískið vel á milli, blandið svo restinni af safanum útí sem og chilli, fræjum úr vanillustöng og matarlitnum. Blandið matarlímsblöndunni útí eggjablönduna og lokum þeirri blöndu útí þeytta rjómann, aftur – varlega – til að halda loftinu 🙂 Takið svo formið ykkar úr kælinum og hellið gula frómasinum varlega ofan á Kahlúa-frómasinn (sem nú er farinn að stífna og því verður þetta leikur einn) og kælið þar til stífnar – eða frystið! Ég setti seinni marengsbotninn strax útá á meðan frómasinn var enn í fljótandi formi, þannig festist botninn vel við og mýkist aðeins. Svo stráði ég restinni af krókantinu yfir.

Það má í rauninni skreyta þetta með hverju sem er. Ég hafði hana bara svona, en gerði pínku pons af súkkulaði-ganas (brætt súkkulaði og dass rjómi hrærður saman við) og drissaði yfir. Þegar kakan er tekin úr smelluforminu er best að setja hníf undir heitt, rennandi vatn, og fara svo meðfram öllu forminu og losa hliðarnar. Taka svo tvo spaða og ferja kökuna yfir á fallegan disk.

Þetta er kannski smá lesning hérna að ofan, en séuð þið komin hingað þá sjáið þið að þetta er í alvörunni ekkert mál. Passa bara að leysa matarlímið alveg upp og passa að hræra ekki blönduna í spað eftir að rjóminn er komin saman við. Annað er beisikk!

Gangi ykkur vel og endilega látið mig vita ef þið skellið í þessa elsku – og hvernig ykkur fannst hún smakkast! Þessi terta er tilvalin á áramótaborðið, hún er svo sannarlega glamúrös og unaðsleg!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: