Möndlu biscotti

Published 19 desember, 2011 by fanney

Biscotti (eða cantuccini) eru ítalskar kökur, nokkurs konar tvíbökur. Þær eru grjótharðar en sé þeim dýft í kaffi, te, kakó, glögg eða annað mýkjast þær upp og verða unaðslegar. Ég þekki líka marga sem vilja ekki dýfa þeim í neitt, heldur bara japla á þeim.

Ég hef lengi verið hrifin af biscotti og prófað ansi margar uppskriftir. Alltaf er eitthvað sem böggar mig, eitthvað sem er ekki eins og ég sé fyrir mér að biscotti á að vera (á klárlega eftir að prófa biscotti á Ítalíu einn daginn!). Þar til nú.

Þeir sem þekkja mig hvað best, vita af sérlegum áhuga mínum á YouTube matreiðslumyndböndum. Hvað get ég sagt? Það er eitthvað svo ægilega heillandi við það að hver sem er geti sett inn myndband af sér við að matbúa eitthvað, og alþjóð fylgist með. Þessi uppskrift er einmitt frá stórvinkonu minni Betty sem ég hef fylgst með núna í tvö ár. Betty er amerískur stærfræðikennari á eftirlaunum sem hefur yndi af því að elda og baka. Rick maðurinn hennar tekur upp þegar Betty dúllast í eldhúsinu, skipulögð sem aldrei fyrr. Henni er nefnilega mikið í mun um að allir geti gert uppskriftirnar og er því mjög skýrmælt. Alveg dásamlegt!

Þessi uppskrift að hinu ítalska biscotti er sumsé frá henni Betty, stórvinkonu minni í Ammríkunni. Klárlega besta biscotti sem ég hef smakkað! Í uppskriftinni eru notaðar möndlur og möndludropar, en það má vel sleppa þeim (eða minnka magnið) og setja þurrkaða ávexti og/eða súkkulaði í staðinn. Já eða aðrar hnetur!

___

Biscotti frá Betty

1 3/4 bolli hveiti

1/2 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

3 egg (þar af eitt aðskilið)

1 bolli sykur

1 tsk vanilludropar

1 msk amaretto líkjör eða 1 tsk möndludropar

2 bollar möndlur, grófsaxaðar (mér finnst möndlur með hýði langbestar, þær haldast líka betur í deiginu en þær sem búið er að afhýða)

___

Blandið sama hveiti, lyftidufti og salti og geymið. Hrærið saman með þeytara eða í hrærivél 2 egg og 1 eggjarauðu (geymið hvítuna til að penslunar síðar) og sykurinn þar til létt og ljóst (verður fölgult og loftkennt). Bætið þá vanilludropunum og amarettu/möndludropunum útí. Blandið svo möndlunum og þurrefnunum útí en passið að hræra ekki of mikið. Deigið á að vera frekar þykkt og klístrað.

Skiptið deiginu í tvennt og mótið tvo aflanga hleifa á bökunarpappírsklæddri ofnplötu. Penslið með eggjahvítunni og drissið smá strásykri yfir. Bakað í 160°C heitum ofni í 20-25 mínútur, eða þar til hleifarnir hafa tekið á sig smá lit. Kælið í hálftíma og skáskerið svo í 2ja cm þykkar sneiðar. Raðið sneiðunum á plötu (ég raða þeim alltaf þannig að þær ,,standi“ en ekki ,,liggi“ því þá þurrkast þær jafnt – held ég!) og bakið við 100 °C hita í 25 til 30 mín, eða þar til sneiðarnar eru orðnar þurrar og harðar.  Þetta geymist afar vel. Til skreytinga má drissa bráðnu súkkulaði yfir, ef vill 🙂

___

Myndbandið hennar Betty má finna hér.

Ég nota amerísk bollamál, 1 bolli er 2,4 dl.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: