Lambaskankar frá Jamie mínum

Published 12 september, 2011 by fanney

Það er farið að kólna allsvakalega. Ég þurfti að skafa framrúðuna í Kermit á laugardagsmorguninn. Haustið er komið. Alltaf skal maður verða jafn hissa á því að það sé mætt, nánast á sama tíma og í fyrra. Ætli þessi ,,veðra-gleymska“ okkar Íslendinga sé ekki einn af coping-mekkanismanum, öðruvísi kæmumst við ekki af hér á landi.

EN – haustið og veturinn tilvalinn tími fyrir dásamlegar kássur, súpur, pottrétti og allskonar comfort-food. Þessi uppskrift er fullkomin í slíkt. Gott rauðvínsglas skemmir ekki, hvorki fyrir kokkinn í eldamennskunni né með matnum sjálfum. Lambaskankar eru ódýrir, fást frosnir m.a. í Bónus, en gefa af sér dýrindis kjöt þegar þeir fá að tsjilla í ofnpotti í nokkra tíma. Þið verðið ekki svikin af þessar lambaskanka-uppskrift, enda fékk ég hana frá honum Jamie vini mínum, altsvo Jamie Oliver. Ég set reyndar meira krydd en gamli og hef uppskriftina því þannig. Þetta verður alls ekki sterkt, en hann Jamie á það til að vera nískur á kryddin 😉

___

Lambaskankar frá Jamie mínum

f. 4

4 lambaskankar

2 dósir af tómötum (Svenni vinur minn kom mér upp á lífrænu kirsuberjatómatana sem fást m.a. í Nettó, þeir eru osomm í þennan rétt!)

1 msk kóríander fræ

1 lítið þurrkað chilli eða 1 tsk chilliduft

1 msk oreganó, þurrkað

salt og pipar

1 msk hveiti

1 msk ólífuolía

1 soho-hvítlaukur eða 3-4 rif

4-6 gulrætur, skornar í teninga

6-8 sellerístönglar, skornir í teninga

2-3 laukar eða rauðlaukar, fínt saxaðir

1-2 msk ferskt rósmarín eða 1-2 tsk þurrkað

3 msk balsamik-edik

170 ml hvítvín (ég hef notað bjór með frábærum árangri – en ekki hvað?)

6 ansjósuflök (hef ekki fundið það á Ak og því sleppt þeim)

væn lúka af ferskri basilíku, fínt söxuð

___

Langur listi, en þetta er dead simple.  Ef þið eigið stóran pott sem má fara inní ofn þá er best að nota hann. Ef ekki, þá er hægt að steikja á pönnu og skella svo í klassískan steikarpott inní ofn.

En – Byrjið á því að útbúa kryddblönduna á kjötið. Ef þið eigið mortél þá notið þið það, annars bara bolla og skaftið á sleifinni ykkar – virkar fínt. Blandið sumsé saman kóríanderfræjunum, chilli, oreganó, salti og pipar og merjið. Fræjin þurfa að brotna og ef þurrkað chilli er notað þarf að mylja það niður. Þessari blöndu er stráð yfir skankana og nuddað vel inní þá. Smá TLC (Tender – Love – Care) er nauðsynlegt til að fá rétta útkomu. Dustið hveitinu yfir og brúnið svo skankana í pottinum/pönnunni í smá ólífuolíu. Takið af og mýkið grænmetið með rósmaríni, þegar laukurinn hefur svitnað er hvítlauknum skellt út á (ef hann brúnast verður hann beyskur, sem er ekki gott mál) og steikt örlítið. Balsamediki bætt útá og það soðið niður í ca 5-7 mínútur. Bætið þvínæst hvítvíninu/bjórnum útí og sjóðið í 2-3 mín. Þá er ansjósunum bætt útí (séu þær notaðar) sem og tómötunum, blandað saman (ekki sprengja tómatana) og kjötinu rúllað út á, inní ofn á 170-180°C í 1,5 – 2 tíma með loki og svo hálftíma án loks.

Brúna leggina vel

Áður en þetta er borið fram þarf að fleyta fitunni ofan af, smakka til með salti og pipar og demba fersku dásamlegu basilíkunni út á. Ég geri oftast blómkálsmús með þessu (sjóða blómkál þar til meyrt, mauka, 2-4 msk rjómaostur, dass þeyttur rjómi, salt, pipar) en það má þess vegna hafa kartöflur og tilbehör. Mér finnst best að bera skankana fram sér og sósuna sér, þ.e. ef ég set ekki uppá diska og ber þannig fram.

Með því að hella víni (eða öðrum vökva) yfir pönnuna náum við upp öllu góðgætinu sem festist við pönnuna þegar við brúnuðum leggina

Þið sjáið að þetta er mjög lítið mál, þessa 2 tíma sem eldamennskan fer fram getur maður farið í sturtu, valið sér kjól, blásið hárið og málað sig – eða sest í sófann með gott rauðvín og notið lífsins 🙂 Gangi ykkur vel!

 

P.s. ef einhverjir afgangar eru, þá er dásamlegt að blanda smá vatni eða soði útí sósuna, skera kjötið í bita og bera fram sem súpu. Jafnvel henda einhverju grænmeti með, sem er að daga uppi í ísskápnum. Fullkomin naglasúpa! 🙂

Auglýsingar

One comment on “Lambaskankar frá Jamie mínum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: