Árið 2007

Published 31 desember, 2007 by fanney

Komið að áramótum, enn einu sinni. Þá er nú til siðs að rifja um árið sem er að kveðja og það ætla ég að gera hérna í ,,nokkrum“ línum. Auðvitað þarf ekki að taka fram að árið innihélt endalaust fleiri góðar stundir með fjölskyldunni og vinunum.

Janúar

Ég byrjaði árið mitt á því að flytja norður á Akureyri – aftur. Þar hóf ég mína síðustu önn í félagsráðgjöf í starfsþjálfun hjá Brynju Óskarsdóttur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Ég bjó á stúdentagörðum HA með þremur öðrum krökkum. Öðruvísi reynsla og skemmtileg. Pínu svona heimavistarfílingur en það MÁTTI geyma bjór í ísskápnum, sem var vel. Í janúar tók ég líka allnokkur kvöld í það að útbúa höfðufat fyrir afmælispartýið hennar Völlu. Gerði mér kórónu úr sykurmolum og vann ekki, sem hlýtur að teljast skandall ársins. Þorlákur tjáði mér að ég hefði verið eini nemandinn í MA sem hefði fengið að lesa upp nemendalistann – so far! Hlýtur að teljast sem hrós. Ég var einnig virk í pólitíkinni og fór m.a. austur á Egilsstaði á kosningafund Samfylkingarinnar. Ansi eftirminnileg ferð, snilldargott veður, norðurljós og atvinnuökumaður. Stuttu seinna komu svo Ágúst Ólafur, Maggi Már og Kata Júl í heimsókn norður sem var…. jaa.. vægast sagt stórkostlega fyndin og skemmtileg. No say more.

Febrúar

Samkvæmt gamla blogginu mínu hef ég verið pínu skotin í YouTube á þessum tíma. Þar fékk ég útrás fyrir nostalgíuna, hlustandi á Roxette og sambærilega tónlistarmenn. BA-ritgerðarskrifin voru komin í gang og líf mitt var að mestu leyti helgað starfsþjálfuninni, skíðum, ræktinni og BA-skrifum. Í lok febrúar fór ég þó til Reykjavíkur enda var elskulega Food and Fun hátíðin haldin á þeim tíma. Slefandi yfir girnilegum mat – og kokkum – náði ég loks að drattast heim til Ellu enda stórkvöld í vændum! Ella og Jón buðu okkur börnunum út að borða á Vox á Hótel Nordica. Þar var einmitt Kai Kalliio að elda sem vann svo keppnina 🙂 Unaðslegur matur og æðislegt kvöld! Seinna í mánuðinum kom svo Baddi frændi norður og við skelltum okkur í Fjallið.

Mars

Í mars fór ég aftur til Reykjavíkur, í þetta skiptið til þess að fara á síðustu árshátíðina mína sem nemi í félagsráðgjöf. Gleðin var við völd, stórglæsileg árshátíð og við öll stórglæsileg. Dans við Hr. Palla formann er eftirminnilegur sem og skondið atvik á kvennaklóstinu. Eftir þessa helgi var svo komið að langþráðri utanlandsferð – útskriftarferðinni okkar! Við fórum nokkrar saman til Parma á Íalíu þar sem við vorum viðstaddar alþjóðaráðstefnu félagsráðgjafa. Mikið etið af parmaskinku, parmesan osti og mikið drukkið af gosvíni og rauðvíni. Svakalega skemmtileg ferð sem var alltof fljót að líða. Í mars hélt líka BA ritgerðin mér í greipum sér, við Dagný grúskuðum og settum speki á blað. Þá tók ég líka afdrifaríka ákvörðun í mars – þá ákvörðun um að ég ætlaði mér að búa á Akureyri. Sé ég ekki eftir þeirri ákvörðun í dag, en men ó men það var frekar erfitt að taka hana!

Apríl

Apríl var gríðarlega erfiður mánuður. Starfsþjálfunin á fullu, farin að vinna sem félagsráðgjafi á sjúkrahúsinu og BA skrif í algleymingi. Minna um skíðaferðir en ég stalst þó öðru hverju til að halda sönsum. Veðrið var unaðslegt og man ég eftir því að hafa setið úti í garði með sambýlingi mínum að læra – í apríl! Í apríl var ég líka næstum því búin að segja mig úr Þjóðkirkjunni eftir prestastefnuna. Ætla að bíða og sjá hvor þessir pappakassar sjái ekki að sér. Í lok apríl kláraði ég svo starfsþjálfunina og fór aftur til Reykjavíkur í skólann í nokkra daga. Þá vorum við Dagný líka á lokasprettinum að klára ofurflottu ritgerðina okkar. Ég fékk svo vinnu í apríl á búsetudeildinni þar sem ég er enn í dag, en er að fást við aðra hluti nú en þá 🙂 Fór á landsfund Samfó og skemmtil mér konunglega. Man sérstaklega eftir því þegar við MaggaStína fundum Sjallakittið á barnum – tíhíhí.

Maí

Kosningar og júróvísjón – hvað get ég sagt? Komin aftur á Akureyri, laus við öll próf og öll verkefni OG BA RITGERÐINA. Við tók skíðamennska og spilakvöld í löngum bunum. Ég flutti af einu stúdentaheimili yfir á annað, bjó núna í Skarðshlíðinni í ógeðisherbergi og á sama gangi bjó tælenskur strákur sem var ALLTAF að elda. Í frístundum skoðaði ég íbúðir til sölu á netinu en hélt aldrei að tveimur mánuðum seinna ætti ég eitt stykki. Einkunin úr BA ritgerðinni kom og henti okkur Dagnýju til skýjanna – 9,7 takk fyrir takk 🙂 Í lok maí læsti ég svo alla lyklana mína inní bílnum mínum og þurfti að fá lögguna á Akureyri til að hjálpa mér. Að sjálfsögðu þorði ég ekki að hringja í hana svo ég leyfði Valdísi að gera það. Ansi hressandi kvöldstund get ég sagt ykkur!

Júní

Ennþá húkkt á íbúðasíðum netsins, föst í herbergiskytru útí þorpi. Við Valdís (lesist: Valdís) húkkuðum far með skútu á Sjómannadaginn því við misstum af bátnum. Sjúklega skemmtileg ferð. MaggaStína útskrifaðist svo úr lögfræðinni, hélt veislu og gaf mér að borða. Daginn sem ég fór svo til Reykjavíkur í mína eigin útskrift gerði ég tilboð í íbúð og eignaðist kvikindið. Útskrifin ennþá sætari fyrir vikið og gaman að hitta allar stelpurnar aftur. Æðisleg veisla í Kópavoginum og svo voða ljúft að komast heim aftur. Áður en ég hélt norður blés ég, ásamt Dagnýju, til útskriftarteitis á skemmtistað í Reykjavík. Svaðalega grand á því 😉 Í lok júní passaði ég svo hús vinkonu minnar á Akureyri sem var ansi ljúf pása frá kytrunni. Ég hélt líka lífi í einni kanínu og nokkrum sumarblómum sem hlýtur að teljast góður árangur. Hélt norðanútskriftarteiti, grillaði lax, spilaði, fór á Jónsmessuhátíð í Kjarnaskógi með MögguStínu og Sunnu Mekkín, fór í bíltúr um Tröllaskagann með Valdísi og Vegahandbókinni og lifði sko lífinu.

Júlí

Fór í stjörnuafmæli til Lalla, reyndi við Höska á afar þokkafullan hátt (höhömm) en folinnn atarna kom þó með mig norður. Heimsóknir ættingja og vina og ég fékk íbúðina afhenta föstudaginn 13. júlí – happadagurinn minn? Hljómsveitin Hraun kúrði með mér í íbúðinni fyrstu nóttina. Samkvæmisklúbburinn The Tonics var stofnaður á Amour, grillerí hjá MögguStínu, tjútt og skemmtilegheit. Sparsltími, málningarvinna og tilheyrandi húsverk einkenndu þennan mánuð enda flutti ég inn strax og ég fékk kotið afhent. Lilsys kom í heimsókn og var mér stoð og stytta í málningarvinnunni – ásamt Signýju og Valdísi. Í lok júlí lagði ég land undir fót og kom heim á nesið á hátíðina Á góðri stundu í Grundarfirði. Var þar auðvitað í græna hverfinu með ættinni og átti unaðslega helgi. Ekki var verra að hitta gamla MA-inga sem voru staddir þarna fyrir tilviljun!

Ágúst

Var á fullu að mála og græja íbúðina, flutt inn og svaf á vindsæng. Húsgögnin komu þó í heilu lagi með familíunni og ég gat farið að sofa í rúmi. Amma og mamma komu og saumuðu gardínur fyrir mig, enda hef ég aldrei verið þekkt fyrir það að vera góð í saumaskap. Fékk bleika Kitchen Aid hrærivél frá fjölskyldunni í útskrifargjöf og hefur hún verið ansi vel nýtt. Við Signý fórum á Fiskidaginn mikla, sváfum í tjaldi en gáfumst upp eftir eina nótt og komum aftur í bæinn. Átti æðislegar sólarstundir á svölunum hjá Völlu og gat notið þess að vera búin að vinna klukkan fjögur – og þá var ég búin! Akureyrarvakan var frábær, familían kom sem var æðislegt. Verslaði húsgögn á nytjamarkaði uppá Hömrum. Var næstum búin að kaupa bleikt borð, en keypti í staðinn vöfflujárn á 100 krónur (aldrei verið notað). Fór til Reykjavíkur að gæsa Kristínu Björgu – eða var það í júlí?

September

Fyrstu helgina fór ég vestur í brúðkaupið hjá Kristínu Björgu og Smára. Hélt uppá afmælið mitt með Dagnýju og MögguStínu – þemað var glimmer og stjörnur. Frábært afmæli, eitt besta hingað til! Höski og Lalli komu norður, þessar elskur, og komu, sáu og sigruðu kvenhjörtun þegar þeir elduðu gourmet dinner heima í Gýpukoti. Fékk sambýling þegar Metta frænka kom úr útskriftarferð og fór að leigja hjá mér. Í lok september komu svo Gúllurnar norður í heimsókn til mín. Unaðsleg helgi í besta félagsskapnum. Kertaljós, rómantík, slúður, brúnkukrem, brjóstamælingar og ég veit ekki hvað og hvað.

Október

Fór á ráðstefnu útí Malmö með Ólöfu vinkonu, versluðum af okkur rassinn í H&M og misstum af fluginu heim. Sem betur fer á systir hennar heima í Köben svo við gátum kúrt í stofunni hennar. Leikæfingar með Freyvangsleikhúsinu voru daglegt brauð, enda sýndum við frumsaminn söngleik fyrstu helgina í nóvember. Sýningin Matur-INN var haldin og auðvitað mætti ég. Fór í æðislega Regnbogamessu í Akureyrarkirku, fór á æðislega sýningu í LA með Valdísi (Óvita) var boðið á tónleikana með Nýdönsk í Samkomuhúsinu og byrjaði í bestustu aukavinnu í heimi – á Friðriki V. Hélt innflutningspartý þar sem Wii-tölvan hans Villa var óspart nýtt. Denni braut loftljós í einu tennishögginu og aumingja Dagný fékk öll glerbrotin yfir sig. Annars einkenndist mánuðurinn af notalegheitum og skemmtilegheitum, spilamennsku og æðislegheitum. Sumsé, nóg af -heitum.

Nóvember

Missti mig í jólagleði, bakaði smákökur, fékk fullt af vinum í heimsókn og við skárum út laufabrauð saman, yndislegar kaffiheimsóknir og kósýheit. Sigursteinn kom í stutta heimsókn norður með Claire Dickens og héldum við fyrirlestur á Amtinu um bók Claire: Þegar ljósið slokknar. Annars var ég bara ánægð og kát í Gýpukotinu mínu, bakaði og hafði það notalegt, spændi upp kertum og spilaði eins og kona á elliheimili. Var líka ansi dugleg að föndra konfekt enda reddaði nýji súkkulaðipotturinn málunum snarlega 🙂

Desember

Fór á Ökutíma með Valdísi, stórkostleg sýning og æðisleg tónlist. Bíð spennt eftir geisladisknum! Hélt áfram að baka og konfektast. Fór í skemmtilega ferð til Reykjavíkur, heimsótti Ellu og Jón, eldaði og spilaði, kíkti á nýja Fjallakofann hjá Eika og Lenu, fór í afmælisboð til Þóru minnar og málaði piparkökur í Vesturbænum. Æðisleg ferð en það var líka æðislegt að koma heim. Hélt bara áfram að njóta lífsins í báðum vinnunum mínum OG utan vinnutíma. Villi bauð mér svo út að borða á Friðrik V. rétt fyrir jólafríið og það er eitthvað sem ALLIR verða að prófa. Þ.e. fara á Friðrik V. að borða – ekki láta Villa bjóða sér, sem var svosem afar ljúft 🙂 Ég brunaði svo vestur í jólafrí, vann smá í Hrundinni og átti æðisleg jól með familíunni. Las mikið, var heilmikið á náttfötunum og heimsótti ömmu og afa.

Næsta ár – vonandi verður það eins viðburðarríkt og þetta, þó svo að íbúðarkaupin mín á þessu ári séu kannski eitt það stærsta sem maður gerir. Ja, kannski fyrir utan börnin. Ég kveð árið 2007 þó sátt, glæsilegt ár þar á ferð. Takk fyrir allt, þið frábæra fólk sem áttið samleið með mér á árinu! Ég hlakka óskaplega til að skapa enn fleiri minningar á komandi ári – en ekki hvað?

Kossar og knús, ég er farin að plögga eyrnatöppunum í mig fyrir hávaðsenuna á miðnætti.

Auglýsingar

9 comments on “Árið 2007

 • Hæææææ.

  Takk fyrir árið 2007 kæra Fanney Dóra sem og árin þar á undan. Þrusufínt ár hjá okkur að baki. Heimsóknin í byrjun árs til Akureyrar var með eftirminnilegri viðburðum seinasta árs held ég bara. Kosningastúss, landsfundur og annað skemmtilegt. Útilegan í Húsafelli (þegar þú bölvaðir mér á leið þinni þangað í 12mín. svo Möggu Stínu og Valdísi blöskraði 🙂 ). ÞUF í Norræna, framsóknarbælinu og svo Valhöll. Leiðinlegt að þú hafir misst af landsþinginu sem var svo skemmtilegt – en þá voru þið Ólöf í útlandinu. En leiðinlegast var þegar þú beilaðir á mér þegar planið var að bruna til Akyreyrar rétt fyrir kosningarnar. Þá varst þú í höfuðborginni. Manstu? Og mamma þín kom til dyra í Kópavoginum. Manstu? Og svo kom símtalið frá þér þegar ég var á Holtavörðuheiðinni og einhver leeeeim afsökun 🙂

  Takk fyrir 2007 og sjáumst hress hið fyrsta á splúnkunýju ári.

  Kveðja góð,

 • MMG – HAHAHAHAHAHAHAHA! Mikið hló ég þegar ég las athugasemdina þína! Snillingatúttinn minn 🙂 Hlakka til að sjá þig sem allra allra fyrst – þú veist af gistihúsinu Gýpukoti hérna á Ak 😉

  ÞM – Sömuleiðis elskan! Kaaaaaanús!

 • Ohh skemmtilegt ár. Ef ég bara myndi hvað ég gerði allt árið, man varla hvað ég gerði í seinustu viku;) En eitt er víst að árið mitt var ekki eins viðburðaríkt og árið þitt, en gott var það:)

  love
  Guðný

 • Hæ elsku frænka og gleðilegt ár. Takk fyrir þessar stundir sem við áttum á síðasta ári, verðum að fjölga þeim á þessu ári.
  Langar rosalega að bjóða ykkur hjúum í mat þegar þið eruð ekki bissí, einhverja helgina. Förum svo að hittast, taka einhverja gelgjumynd eða eitthvað, ekki föndrum við aðventukrans alveg strax..
  Heyrumst 🙂

 • var ég búin að nefna við þig að kærastinn þinn er líkur jake gyllenhaal? sem er soldið fyndið með það í huga að þú varst að blogga um jake um daginn! talandi um að vita hvað maður vill;)

  gaman annars að lesa pistilinn elsku fannsa mín, þú hefur heldur betur rúllað upp 2007. og hey! er ef til vill að fara í skíðaferð til akureyrar og gista á hótel kea í febrúar. spurning um hvort við mægðurnar mættum kíkja í heimsókn til túttunnar? 😉

 • Elsku Fanney-in mín. Takk fyrir frábært ár… gífurlega glöð að MaggaStína leiddi okkur saman 😉 Þú ert megatútta allra tíma og besta ‘hostess’ ever. Hlakka til að taka Votu tárin sem fyrst á nýju ári og eiga fleiri unaðsstundir… úhh uuuuuuunaðsstundir… nett kynferðislegt eitthvað við þetta orð.

  Hlakka til að sjá þig beibíkeik…

 • GMA – þökk sé blogginu! Ég man varla hvað ég gerði í gær! hehehe

  DÁ – sömuleiðis! Stefnum á dinner við gott tækifæri – jafnvel spilamennsku eftirá?

  Harps – hahahaha.. góð! Veriði velkomnar elskurnar! Ég er viss um að dóttirin muni ELSKA bleika vegginn minn!

  Maggus – :*

  DRH – knús á þig sæta! Alltaf til í unaðsstund með þér, heita kona! Og já! Votu tárin sem fyrst!

 • Færðu inn athugasemd

  Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

  WordPress.com Logo

  You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

  Twitter picture

  You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

  Facebook photo

  You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

  Google+ photo

  You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

  Tengist við %s

  %d bloggurum líkar þetta: